<$BlogRSDURL$>

Sunday, October 31, 2004


"Mörg er góð mær,
ef görva kannar,
hugbrigð við hali."

Gott kvöld.
Spámaðurinn hélt í hringiðuna og dauðadansinn í miðborginni á föstudagsnóttina. Hann slóst í för með skiptinemalýðnum sem sækir heim skóla hans... Eftir að hafa rápað á milli helvískra búlla þar sem mjöður flýtur um gólf og ælutaumur rennur um kinn sótti undarleg þörf að suðrænu gestum lands vors, en liðið ákvað skyndilega að þörf væri á jarðarberjaís... Því var rölt niður í einhverja sjoppu niðri við sjó og þar horfði Spámaðurinn á suðrænu gestina torga heilum lítra af kjörís í portinu á bakvið sjoppuna í brunagaddi og haglél. Hugsanlega vilja gestirnir kynnast hinum íslenska veruleika og langað til að upplifa hina rammíslenzku asíuflensu. Eða máski hefur græna tóbakið verið haft um hönd og svengd sótt að hópnum... Svarið hefur Spámaðurinn ekki á reiðum höndum. Alla vega varð Spámaðurinn feginn þegar ísátið var yfirstaðið og haldið var aftur í normalheitin inni á knæpu þar sem fólk hegðaði sér á útreiknanlegann hátt (þeas. slangraði um kófsveitt eða hristi botninn).
Spámanninum finnst sniðugt hvernig margir skemmtistaðir gefa til kynna að darraðadans ó/náttúrunnar sé á enda, en það gera þeir með því að kveikja ljósin.
Þar sem fólk hefur skemmt sér í hálfrökkri og marglitum glitrandi, blikkandi ljósum kviknar allt í einu ljós sem sýnir gestum hinn ógeðfellda veruleika sem þeir hafa verið að forðast svo lengi. Vægðarlaus flóðlýsingin afhjúpar mystísku fegurðardísina á næsta borði og á augnabliki er hulunni svipt af ljósrauðu andliti, svitapollum í handarkrikum og sígarettugulu á fingrum hennar. Glerbrot, sígarettustubbar, týndir gemsar og annað sem stráð er um gólfin koma skyndilega í ljós, raunverulegur litur veggjarins verður greinilegur, töffarinn sem húkti undir vegg og fylgdist íbygginn með mannlífinu hangir skyndilega á veggnum vegna þess að hann getur ekki annað, öfuguggar geta ekki lengur klipið í þrýstna botna í skjóli myrkurs, glitrandi augu fá skyndilega dökka bauga, bjórslettur á munstruðum pilsum koma í ljós, vandaða dú-ið verður allt í einu að svitastorknum lubba og kekkjótta slorið í botnum bjórglasanna á borðinu verður sýnilegt.
Og flestir halda heim á leið...


Tuesday, October 26, 2004


"Enginn er verri
en Ormur á Knerri."

Spámaðurinn er moldríkur í dag! Eftir nokkuð marga daga af sulti og neyð er Spámaðurinn nú með vasa fulla fjár og skreytir líkama sinn með blingbling.
Hlemmur virðist vera fullur af heiðarlegum sálum sem hafa leyft hraðbankanum að gleypa seðlana sem spámaðurinn gleymdi, og biður Spámaðurinn vergangsliðið, táningana, tunglsjúklingana og alkóhólistana á hlemmi hérmeð afsökunar á því að hafa búist við hinu versta af þeirra hálfu.
Eftir þessar gleðifréttir fékk Spámaðurinn sér veglega máltíð, sem var himnesk upplifun, því matarræði Spámannsins var orðið ansi sjúskað (matseðill gærdagsins: þurrt hrökkbrauð í hádeginu og 1 stk. vafasamur, fundinn vorrúllufjársjóður úr frystihólfinu og grænar baunir úr dós að kveldi).
Spámaðurinn þarf aldrei aftur að skeina sér á eldhúsrúllu þökk sé einhverjum bráðskörpum (og nafnlausum) lesanda Rassgathole! Vei Vei!




Að lokum er það tímavélin:
Spámaðurinn ætlar að ferðast með ykkur aftur í tíma. Nánar til tekið, til ársins 1999 beint inn í athyglisverðar og bráðskemmtilegar samræður Bandarískra reykingamanna um tóbaksfíkn sína og kjarnorkuhelför tvöþúsundvandans: hérna


Thursday, October 21, 2004


"Þveginn og mettur
ríði maður þingi að,
þótt hann sé-t væddur til vel.
Skúa og bróka
skammist engi maður
né hests in heldur,
þátt hann hafi-t góðan"

Gott kvöld.
Þó höfuð og hugur Spámannsins séu í skýjunum hjá almættinu er líkami hans á jörðinni. Veski Spámannsins fékk þungt högg nýlega... En Spámaðurinn hefur sjaldan formælt örlögunum og heimsku sinni jafn kröftuglega og í gær.
Hvers vegna?
Spámaðurinn var með fjárhagsáætlun, en hann átti 3000 krónur í gær... Hann hugðist versla sér matarfjall og nokkur grömm af tóbaki og reyna að láta það svo duga sér út mánuðinn, meir að segja ætlaði hann sér að fá sér kaffibolla á kaffistofu guðanna fyrir afganginn.
Svo Spámaðurinn fór í hraðbankann á hlemmi, tók út þrjúþúsarann sinn, tók kvittunina og kortið og gekk svo niður laugaveginn. En þar sem hugur Spámannsins er meðal almáttugra vera í himnaríki GLEYMDI hann peningnum!!! Og þar sem hlemmur er staður þar sem slagsmál brjótast út yfir kramdri gosdós á glámbekk, gufaði peningurinn að sjálfsögðu upp.

Blankheit breyta heiminum í veisluborð...
Skyndilega eru vafasömu tómatarnir aftast í ísskápnum orðnir mjög girnilegir, allt í einu er tilhugsunin um pasta með niðursoðnum sveppum (eingöngu) alls ekki slæm, mjúka kexið á að vera mjúkt, te með þriðju-umferðar tepoka er allt í einu ekkert of þunnt, Faxe dósin sem er við það að ryðga í ísskápshurðinni er geymd til betra kvölds þegar Spámaðurinn vill hafa það náðugt, skraufþurru L&M sígaretturnar sem enginn vill verða allt í einu svo eftirsóttar að þeim er skammtað... Hrökkbrauð með sultu? Já takk!!!

Djöfull væri nú gaman ef að ég fengi aðra sjúpa-sleikjó kynningu inn um bréfalúguna í fyrramálið.




Monday, October 18, 2004



























Hver er ég? Hvað er ég? Af hverju hafa Japanir svona mikinn áhuga á því hvar ég er?


Sunday, October 17, 2004


"Þagalt og hugalt
skyldi þjóðans barn
og vígdjarft vera.
Glaður og reifur
skyli gumna hver
uns sinn bíður bana."

Spámaðurinn öslaði uppgang og sígarettustubba meðal drýslanna og gleðikvenna Satans alla aðfaranótt laugardagsins.
Því hefði hann sennilega betur sleppt, því að eftir að hafa slangrað með Manzo félaga sínum frá knæpu til knæpu er Spámaðurinn með nístandi fyllerísmóral... Það er ansi mikið af fólki sem Spámanninn langar aldrei til að hitta aftur.
Auk er Spámaðurinn frekar blankur og sér fram á reykleysi og sult undir lok mánaðarins. Spámaðurinn hefur reyndar lent í því áður, og ætti alveg að spjara sig.
Annars er Spámaðurinn orðinn ansi eirðarlaus, hann sér fram á að útskrifast fljótlega og eftir útskriftina fer hann úr landi. Og nú þegar sá möguleiki er rétt innan seilingar, þá finnur hann enga ró í sínum beinum. Spámaðurinn vill fara, helst strax.
Hvert hann fer er enn óráðið. En það ætti ekki að vera vandamál.
Einn af andlegum leiðtogum Spámannsins (þeas. kennari) segir honum að Spámaðurinn sé best geymdur í Borg Englanna í landi hamborgaranna. Sennilega ekki vegna vaxtarlags Spámannsins, heldur vegna námsins og fólksins.
Spámaðurinn hefur heyrt ýmislegt um dagana, en hann hefur aldrei heyrt "þú ert svo mikið L.A." áður.
Spámaðurinn er nú ekki mjög fróður um Los Angeles. Það eina sem hann veit er að lesburnar í L-word þáttunum búa í samkynhneigða hluta borgarinnar, að Hollywood er þar og að það eru fáar borgir í heiminum sem glíma við jafn stórt klíkuvandamál og Los Angeles.


Satt best að segja er Spámaðurinn skíthræddur við bandaríkin... Kanar eru, eins og allir vita, snargeðveikir.
Kannski Spámaðurinn yrði smástyrni í hollywood kvikmynd, síðan myndi hann éta þar til hann yrði spikfeitur, koma út úr skápnum og vera svo plaffaður niður í drævbæi á leiðinni út í búð (til að kaupa twinkies og smokka) af óvinveittum heimadrengjum.
Hvernig ætti saklaus Spámaður að lifa af í svona umhverfi innan um hollywood stirni og gengjastríð?
Samt... Freistar smá.

Eða hvað finnst ykkur, lesendum Rassgathole? Er Spámaðurinn hæfur til vistar í landi hamborgara og skotvopna?
Áður en þið svarið, vil ég benda ykkur á að ef þið hvetjið Spámanninn til að fara og allt fer á versta veg (þeas. sundurskotið hræ hans rotnar í ræsi í Englaborg) þá eruð þið ábyrg!









Saturday, October 16, 2004



Jæja Dópsalar!!11!! skjálvið! essi nafnalisti er eína 'astaeðan fyrir því að ég og allir sem ég þeki eru á lívi ennðá:

-Raggi Bjarna

-Ellý Vilhjálms

-Gummi Gumm

-Lúlli tanngarður

-Búggi

-Sigurður (gæti verið jónasson, jónson, jóhannesson, jóhannsson eða haft millinafnið jón, jóhann, jóhannes eða jónmundur)

-Jói Prentvilla

-Svenni klikk

-Gaddi Stöng

-Hafnarfjarðar Gullý

-Jón Jónsson (sala/dreyfing/innflutningur/rukkanir/aftökur o.fl)

-Stebbi Geit (allavega mjög vafasamur, sé hann oft í strætó)

-Svenni klikk (ekki sami svenni klikk og svenni klikk hér að ofan, heldur annar svenni klikk)

-Inga Magg

-Kobbi Kviðrista (innflutningur á arseniki og smygl á píputóbaki)

-Ljótur Karl Sauðbergsson (hugsanlega ekki dópsali, bíð eftir staðfestingu á því)

-Boris Van Brflovski (útflutningur)

-Köngulóin (stundum kallaður vefarinn)

- *** Brjánsson (vantar fullt nafn, vonast til að fá það og bæta því á listann fljótlega)

-H.K. Laxness (sala/dreyfing/innflutningur)

-Jón Friður Ást Ský Tré Karlsson

-Hlébarðinn

-Lási (lögreglumaður/sala/innflutningur/dreyfing)

-Clark Kent







Thursday, October 14, 2004


Andvari eg heiti,
Óinn hét minn faðir,
margan hefi eg foss of farið.
Aumleg norn
skóp oss í árdaga
að eg skyldi í vatni vaða.

Gott kvöld.
Spámaðurinn ferðaðist óvart í gegnum þrjú heil bæjarfélög í dag... Það sem olli þessu hlýtur að hafa verið einhverskonar skammhlaup í höfði Spámannsins, hugsanlegt er að hann hafi verið utan við sig vegna þess hve þungt syndir og óeðli mannkyns vega á huga hans (hann er jú, lausnari mannkindar, fólki í slíkum lykilstöðum leyfist stundum að vera utan við sig).
Þannig er mál með vexti að Spámaðurinn tók strætisvagn númer 140 í mörg mörg ár. Spámaðurinn er öreigi, og ferðast því að hætti öreiga með strætisvögnum, grænt pappírssnifsi er það næsta sem Spámaðurinn hefur nokkurntímann komist því að eiga bíl.
Strætisvagn númer 140 er eini tengiliðurinn við siðmenningu sem hafnfirðingar án ökutækja hafa. Því ferðaðist Spámaðurinn mjög mikið með vagni númer 140, til dæmis til að sækja vinnu og skóla. Svo þegar Spámaðurinn færði aðsetur sitt til höfuðborgarinnar notaði hann vagn númer 140 til þess að komast til vinnu sinnar á kópavogshælinu og aftur til baka. Svo þegar að Spámaðurinn hætti að vinna í kópavoginum og fór að mennta sig í Reykjavík byrjaði hann að ferðast með strætisvagnaleið 4, sem gengur inn í Lauganes.
Spámaðurinn áttar sig á að þetta er flókin stærðfræði fyrir lesendur Rassgathole, en hann biður þá um að sýna þolinmæði.
Seinni part dagsins hugðist Spámaðurinn sumsé halda niður í Lauganes og sitja þar við að teikna og skrifa fram eftir kvöldi.
Þegar Spámaðurinn ferðast með strætisvögnum deyfir hann skilningarvitin og sekkur sér í djúpar vangaveltur um lífið og tilveruna. Það gerði hann einnig í dag á meðan hann beið eftir vagni númer 4 á hlemmi.
Svo kom vagninn, og Spámaðurinn steig upp í vagninn, veifaði græna snifsinu og settist svo niður. Spámaðurinn blaðaði í tímariti á meðan hann beið eftir að vagninn kæmi að stoppistöðinni. Á meðan hann blaðaði í tímaritinu var lítil rödd í höfði hans sem endurtók í sífellu: "Þetta er rangt! Þetta er rangt! Spámaður hlustaðu! Það er eitthvað bogið við þetta!".
En Spámaðurinn er vanur freistingum Kölska og veit því betur en að skeyta um raddir í höfði sér...Því kærði hann sig kollóttann um vælið í þessari lágværu rödd.

Spámaðurinn steig svo úr vagninum og kveikti sér í sígarettu... Þá rann upp fyrir honum hvað var að.
Í stað þess að standa við Lauganesveg í Reykjavík stóð hann fyrir framan verslunarmiðstöðina "Fjörðinn" við Strandgötu í Hafnarfirði...



Wednesday, October 13, 2004


"Svört verða sólskin
um sumur eftir, veður öll válynd. Vituð ér enn eða hvað?"

Listadún:
Listadún framleiddi rúm og dýnur, þegar að listadún brann tók meira en sólahring að slökkva eldinn og fólk í nágreninu var rekið af heimilum sínum þegar að baneitraður mökkur sem brennandi rekkjurnar gáfu frá sér færðist yfir.

Spámaðurinn lék sér oft í drullupolli sem barn...
Drullupollurinn var mjög stór, sennilega sá stærsti í Hafnarfirði, en hann myndaðist í húsagrunni og var líka mjög djúpur, nógu djúpur til þess að hægt væri að fá sér sundsprett í honum (sem að Spámaðurinn og Palli gerðu, við lítinn fögnuð foreldra sinna). Vatnið var ljósbrúnt, svipað og kókómjólk og á því flaut einangrunarkorkur og spítnadrasl úr grunninum. Drullupollur á stærð við hús er alltaf spennandi fyrir fábjána á þessum aldri, við busluðum í pollinum, migum í pollinn, smíðuðum báta af einstakri vankunnáttu og settum þá á flot, hentum steinum og rusli í pollinn...osfrv.
Grunnurinn var hátt uppi á kletti og þaðan sá maður yfir alla Fröken Reykjavík.
Daginn sem listadún brann sáu Spámaðurinn og félagar hans mikinn, biksvartann reykjarmökk stíga upp frá höfuðborginni.
Spámaðurinn taldi sig vita hvað væri í gangi...Hann beit á jaxlinn og sætti sig við örlög sín eins og sannur píslarvottur.
Spámaðurinn hélt svo heim með tárin í augunum og tilkynnti móður sinni að við myndum öll deyja því að eldgos væri hafið í Reykjavík.






Friday, October 08, 2004


"Dulce et decorum est
Pro patria mori"

Gott kvöld.
Spámaðurinn fór í hof peningamauss og klinksparnaðar, Smáralindina í dag. Ástæða þess var sú að Spámaðurinn svipaðist um í vopnabúri sínu og sá að nærbrækur og sokkar hans voru í frekar vafasömu ástandi (mörg loftræstigöt).
En nú þarf Spámaðurinn ekki að hafa áhyggjur af því að heyra sjúkraliða tala um grátbroslegt ástand nærfata sinna á meðan þeir berjast við að bjarga lífi hans þar sem hann liggur í blóði sínu eftir bílslys.

Einnig fór Spámaðurinn í Ikea... Ikea hefur undarleg áhrif á Spámanninn. Þegar Spámaðurinn lítur á gerilsneyddar og hagkvæmar stofurnar og eldhúsin þar, kemur upp í honum vandallinn og oftast endar hann á því að teikna typpi í Sven Hassel bækurnar í hillunum í stofunum.
Hvers vegna Ikea hefur þessi áhrif á Spámanninn er ekki gott að segja. Hugsanlega er það tilhugsuninn um Sænska eiginmenn í hvítum skyrtum að saxa niður plastgrænmeti á "huonka" skurðarbrettinu á meðan ljóshærð börnin leika sér með vistvæn "kubbalubba" þroskaleikföng á "isbjorn" gervifeldinum innan um bókahillur drekkhlaðnar ritsigrum Svens Hassels?
Eða kannski er það eitthvað kraumandi hatur á Sænskum fúnksjónalisma grafið djúpt í undirmeðvitund Spámannsins?
Eða kannski er það sú staðreynd að þegar að Spámaðurinn byrjaði fyrst að búa með þáverandi unnustu sinni var íbúð hans innrættuð með sniðugum og hagkvæmum húsgögnum frá Ikea. Spámaðurinn bjó í heimi sniðugrar sænskrar hönnunar og heimur hans var skrúfaður saman með sniðugu sexhyrndu stykki.
Slíkt hafði vafasöm áhrif á Spámanninn, og hann fór fljótlega að finna fyrir óeðlilegum kenndum: Hann fékk skyndilega undarlega löngun til þess að lesa bókina "Hengdur með vélbyssu í hönd á vesturvígstöðvunum" eftir Sven Hassel, hann fór að nota orðið "och" í stað "og" og fann hvöt hjá sér til að skreyta veggi sína með myndum af Eyrarsundi og Nordsjö.
Botninn tók úr þegar að þáverandi unnusta hans bar plastávexti í húsið...En þá áttaði Spámaðurinn sig á því að eitthvert Sænskt afl var farið að hefjast handa við að skrúfa sundur huga hans og sjálfstæðann vilja með sniðugum sexkanti og pakka stykkjunum niður í vistvæna pappakassa... Því enduðu plastaldinin í ruslafötunni þrátt fyrir mótmæli unnustunar. Ekki það að Spámaðurinn telji Ikea vera einhvern hjónadjöful sem beri ábyrgð á blóðugum sambandslitum hans. Alls ekki, því slíkt kom í veg fyrir að Spámaðurinn feðraði 2.5 börn sem bæru nöfn á borð við Inge og Ole. Og það kom einnig í veg fyrir að hin ófæddu Inge og Ole léku sér með klunnalega og vistvæna "brunkunta" trébrunabílinn á græna nælonteppinu innan um regnskóg af plastblómum og sniðugum heimilislausnum.

Spámaðurinn býr ekki lengur við sniðugar heimilislausnir þar sem öll vandamál heimsins verða leyst á augabragði með sexkanti og leiðbeingabæklingi...
Samt er eitthvað "heillandi" við það...Þeas. Alveg þangað til maður hefur horfst í augu við drekann. En Spámaðurinn fullvissar lesendur Rassgathole að þegar að þeir hafa horfst í augu við IkeaDrekann í hvítu skyrtunni sem brosir framan í þig af endurvinnanlega glanspappírnum munu þeir framvegis skrúfa húsgögnin sín vitlaust saman, án leiðbeininga og á þann erfiðasta hátt sem mögulegt er.
Kannski er Ikea virki ára og drýsla? Eða jafnvel verkfæri "hans" ? Það væru snyrtileg Ragnarök, þar sem mannkynið væri skrúfað í sundur með sniðugum sexköntum, raðað á þann hátt sem sparar mest pláss ofan í vistvæna pappakassa og síðan skellt upp á lyftara sem skellir þeim upp í háa hillu meðal meðbræðra sinna (á pláss-sparandi og hagkvæmann hátt) inni í stóru vöruhúsi. Hugsanlega yrði svo klesst límmiða á vistvæna og endurvinnanlega líkkistu Spámannsins sem bæri strikamerki og grafskriftina: "Rässgäthöl Spämann, hvit#34083940-x08".

Mynd: Heimurinn eftir Ikea-Ragnarök


Að lokum fær Spike Milligan orðið í ljóðahorni Rassgathole:

Carrington Figs
Cared not two figs
Whether he lived or died.
But when he was dead
He lay on his bed
And cried and cried and cried.



Monday, October 04, 2004


"Ósnjallur maður
hyggst munu ey lifa,
ef hann við víg varast.
En elli gefur
honum engi frið,
þótt honum geirar gefi."

Gott kvöld.
Spámaðurinn er með nostalgíu.
Spámaðurinn hefur ákveðið að fremja innbrot fljótlega. Húsið sem að Spámaðurinn ætlar að brjótast inn í var æskuheimili Spámannsins.
Nú munu eflaust lesendur hins heilaga Rassgathole hrópa upp yfir sig og í forundran grátbiðja Spámanninn að víkja af hinni þyrnum stráðu braut glæpanna. En Spámaðurinn skellir skollaeyrum við slíkum bænum...Innbrotið skal framið.
Reyndar er staðreyndin sú að æskuheimili Spámannsins hefur staðið autt ansi lengi og þegar Spámaðurinn átti leið þar hjá sá hann ekki betur en að þegar væri búið að brjótast inn í það... Að minnsta kosti fækkar heilu rúðunum í húsinu óðfluga.
Í minningunni er húsið mun stærra að innan heldur en það er að utan.
Þangað flutti Spámaðurinn þegar hann var aðeins fjögurra ára gamall, og flutti þaðan þegar hann var tólf ára...Svo það eru ansi mörg ár síðan hann hefur þangað inn komið.
Húsið var eitt af fyrstu húsunum í hafnarfirðinum, og hugsanlega eitt af þeim fjórum sem stóðu þarna árið 1845 þegar að fyrrnefndur þýskur túristi heimsótti Hafnarfjörðinn. Húsið var rækilega vanrækt af hafnarfjarðarbæ eftir að Spámaðurinn flutti þaðan, en t.d. hafa ryðgaðar og götóttar bárujárnsplötur þess ekki verið málaðar síðan Spámaðurinn yfirgaf höllina.


Síðan Spámaðurinn fór hefur húsið hýst hreppsómaga og svo á seinni tímum fólk frá Nígeríu sem hefur dvalið hér á landi til þess að læra fiskveiðar af Hafnfirðingum... En loks varð húsið svo ógeðslegt að meir að segja höfðingjar Hafnarfjarðar töldu að ekki væri hægt að bjóða fólki að dvelja þar og því hefur það staðið autt síðustu ár.
Fyrir skömmu fékk Spámaðurinn svo þær fréttir að til stæði að rífa hans heittelskaða æskuheimili og leggja þar fleiri bílastæði fyrir þá sem leita sér lækninga á Sankti Jósepsspítala.
Því hefur Spámaðurinn ákveðið að leggja í pílagrímsför til Hafnarfjarðar til þess að svipast aðeins um inni á æskuheimilinu.
Sennilega yrðu margir ansi fúlir ef að fjárhúsið þar þar sem got seinasta frelsara átti sér stað stæði enn i dag og til stæði að rífa það, en Spámaðurinn veit betur en svo að fokka í yfirvöldum Hafnarfjarðar, svo hann ætlar ekki að leggjast í neina húsfriðunarbaráttu.
Hinsvegar ætlar hann aðeins að svipast um þarna. Og hugsanlega að taka nokkrar ljósmyndir til að geta minnst fölnaðrar æsku sinnar.
Spámaðurinn minnist þess enn að þegar hann byrjaði í grunnskóla sögðu samnemendur hans honum hræðilegar draugasögur af húsinu vegna slyss sem átti sér stað þar stuttu áður en hann flutti þangað. Og samkvæmt Erlu Bolladóttur var Geirfinnur týndi geymdur í poka í kjallaranum á næsta húsi. Þrátt fyrir það varð Spámaðurinn aldrei vitni að neinum fróðárundrum...
Reyndar er Spámaðurinn nokkuð vanur yfirgefnum húsum og hefur nokkrum sinnum í ógáti rofið heimilisfrið drykkjusjúklinga og utangarðsmanna í yfirgefnum húsum þegar hann hefur þar verið á ferð í þeim tilgangi að skrifa orð Spámannsins á veggi heimilis þeirra. Einnig virðist sem fólk sem hefur miklar sérþarfir varðandi trúarbrögð sín leiti á slíka staði, en Spámaðurinn hefur nokkrum sinnum rekist á ummerki um slíkt (þeas. einhverskonar galdrahringi, kerti, rúnir og þessháttar.)


Mynd: Spámaðurinn við iðju sína. Anno Domini:2002


Saturday, October 02, 2004


"Þrym drap hann fyrstan,
þursa drottin,
og ætt jötuns
alla lamdi."

Spámaðurinn hefur samið um meiri tíma fyrir mannkynið... Samningar náðust um tíu mínútna seinkun á Ragnarökum.

Allir græða...Nema náttúrulega sæta parið sem leitar skjóls í Aski Yggdrasils. Þeirra rómantík hefur verið seinkað um tíu mínútur.

Reyndar grunar Spámanninn svik, því að í þessum töluðu orðum berast öskur og sprengingar frá klambratúni...

Annars er Spámaðurinn að mestu búinn að liggja yfir bókmenntum í dag, en hann keypti sér eitthvað af bókmenntum. Um mánaðarmót er LÍNspeninn gjöfull.
Ein af þessum bókum rauk strax í topp tíu hjá Spámanninum, en hún var gefin út árið 1945 og ber nafnið "Íslandsferð fyrir hundrað árum" og er íslensk þýðing á skrifum eins af fyrstu þýsku túristunum okkar.
Hún kom hingað árið 1845 og skrifaði mjög athyglisverðar lýsingar á landi og þjóð. Hún ber Íslendingum ekki söguna vel og segir farir sínar ekki sléttar.
Á ferð hennar um landið mættu henni allstaðar frumstæðir villimenn sem buðu henni gistingu í viðbjóðslegum baðstofum innan um fyllibyttur og holdsveik börn. Samkvæmt henni eru Íslendingar kvefaðir allir með tölu og ekki svefnfriður fyrir sífelldu hósti og kjöltri í þeim. Svo eru þeir latir, eigingjarnir, heimskir og eyða öllum peningum sínum í brennivín og neftóbak (og vasaklútar eru með öllu óþekktir)... Einnig eru gólfin í baðstofunum hál af hráka og uppgangi.
Verst þótti henni þó hvernig þeir hópuðust í kring um hana til að stara á hana, en ómenntaður lýðurinn hafði sennilega aldrei séð Þýska yfirstéttakonu fyrr, hvað þá manneskju sem kunni að skrifa.
Hafnarfjörðurinn virðist heldur ekki hafa verið mjög hýr á þessum tíma... Reyndar virðist hann ekki hafa breyst mikið síðan hún var þarna, þó timburhúsin séu orðin fleiri en fjögur. Í stað súfistans kúldrast hafnfirðingarnir í skítugum moldarkofum og taka í nefið.
Undir lokin bendir hún svo á að hér á landi séu regnhlífar með öllu gagnslausar.






This page is powered by Blogger. Isn't yours?    Site Meter