<$BlogRSDURL$>

Monday, November 29, 2004


"Það kann eg ið átjánda,
er eg æva kenni'g
mey né manns konu,
- allt er betra"

Gott kvöld.
Spámaðurinn er aftur orðinn nýtur þjóðfélagsþegn með farsíma í vasa. Stykkið er reyndar eitthvert skítaskrapatól með biluðu batteríi og sígrenjandi eftir alkalísýru... En sími er það þó.
Farsímar eru orðnir hluti af náttúru okkar... Líkt og fuglar safna glitrandi glingri í hreiður sín til að fá athygli veikara kynsins og fuglar í regnskógum eru með marglitar loftfylltar bringur eða kamba. Og síminn er orðinn alveg jafn tilgangslaust blekkingartól líka. Jón breiðholtsdraugur, á blettóttum hlýrabolnum og brókinni, liggur á sófanum á miðnætti, tómur pizzakassinn vegur salt á bumbu hans og hann horfir á lesbíuorgíu í sjónvarpinu með öðru auga á meðan hann skrifar sms til gærunnar sem hann kynntist á glaumbar um helgina: "eg ligg hér allsber uppi rumi með kertaljos allt í kring ad hlusta a celine dion thad er svo kosi". Gæran tekur eftir væli síma síns sem titrar af fryggð þegar skilaboðin berast og lítur upp úr kókópöffs skálinni sem hvílir á borði við hlið Ísfólksins og svarar einhverju á borð við: "ooo eg vildi að eg væri hjá ther". Ef að heilinn er næmasta s/kynfærið þegar að kemur að kynlífi, þá er lygin snípkítlisfiðrildiseggið sem virkar langbest á heilann. Allir vita að símavændiskonan er að borða subway, bora í nefið og skrifa innkaupalista á meðan hún stynur og glennir sýndarveruleikapíkuna fyrir ímyndunarafli örvæntingarfulls vörubílsstjóra. þegar Britney Agúílera skekur sig sem yxna belja og syngur "I want you beip" meinar hún ekki hvern og einn hinna tugþúsunda bólugröfnu, spólgröðu táningspilta sem á hlýða. Backstreet17 eru allir samkynhneigðir. Það er ekkert sjúkrahús í Svartaskógi og læknar eru sjaldnast hávaxnir, dökkhærðir, fórnfúsir sjarmörar með glampandi tennur, amk. ekki á heilsugæslunni í hlíðunum, né kópavogshæli...Og hjúkkurnar klæðast þúsundþvotta joggingöllum og klossum en ekki mínípilsum og háhælum. Elskhugar sem taka inn eitur saman eða stinga sig með rýtingum gefa deyja með höfuðin ofan í polli af blóði, uppgangi og galli.
Eftir ragnarök ætlar Spámaðurinn að kippa þessu öllu í liðinn, allt fólk í heilbrigðisgeiranum verður spólgratt og klætt eins og skækjur og karlhórur, poppstjörnur munu serða alla aðdáendur sína og það verður rómantískt sjúkrahús í austurríska skóginum...

Saturday, November 27, 2004


"Gráðugur halur,
nema geðs viti,
etur sér aldurtrega."

Spámaðurinn hélt í hof hins rauðglóandi krítarkorts: Kringluna.
Kringlan er sturlandi darraðadans óeðlis, kynæðis og satanískra hvata.
Spámaðurinn veit nú hvar jólasveinarnir halda sig áður en þeir koma til byggða: Í kringlunni. Spámanninum fannst hann vera kominn áfram í tíma og rúmi, í kringlunni er eilíf þorláksmessa. Pör í matching joggingöllum spranga þar um og glotta lymskulega yfir leyndarmálinu mikla sem þau geyma(hann/hún fær rakvél/ilmvatn/heimabíó í jólagjöf). Erfingjar landsins sprikla krampakennt í prísund innkaupakerrunar, gefa frá skerandi öskur og bölva alheiminum í sykurvímu. Ugg setti að Spámanninum þegar hann sá geðveiksleg augnaráð þeirra.
Á meðan spilar einhver hljómsveit djassútgáfu af "jólasveinar ganga um gólf" og Sigga Beinteins brosir til kolgeðveikra, spriklandi óþekktaranga.
Spámaðurinn tók þátt í skoðanakönnun um sódavatn (hversu mikið hlutverk spilar kolsýrt vatn í lífi þínu?), fékk að smakka kaffi með kanilbragði, smakka súkkulaði með kaffibragði, smakka einhverja danska skinku og var svo boðinn viðbótarlífeyrissparnaður tvisvar (í heildina hefur Spámanninum afþakkað slíkt sex sinnum á tveimur vikum). Spámaðurinn afþakkaði þó piparkökuna með nafni sínu á, og blöðrudýrið líka. Spámanninum sortnaði fyrir augum og hann fékk sterka löngun til að draga Gáttaþef niður í bílageymslu og kyrkja hann, en hafði hemil á sér.
Þegar Spámaðurinn var að velta sér upp úr eymd og volæði fyrr á árinu eftir erfið sambandsslit mælti félagi hans þessi uppörvandi orð: "Bíddu bara eftir jólunum, þau eru verst". Mikið var það rétt hjá honum: Án ljósrauðra gleraugna ástarinnar eru jólin viðbjóðslegt fyrirbæri...Sérstaklega í nóvember. Það eina sem Spámaðurinn sér núna eru klysjukenndar skjáauglýsingar, sturlandi ljós, jólahúfuklætt starfsfólk með þvinguð bros, mæðrastyrksnefndarbiðraðir og vísitölujoggingallafjölskyldur með innkaupakerrur fullur af hagkaupshangiketi, jólakóki og ofbeldisfullum dvergum, sturluðum af ofneyslu sykurs.
Spámaðurinn var farinn að svitna og farið að sundla þegar að hann loksins kom út.



Jákvæða hlið ferðarinnar er að Spámaðurinn er núna kominn með símakort sem verður virkt á mánudaginn, en þá verður Spámaðurinn aftur hluti af mannlegu samfélagi.

Wednesday, November 24, 2004


"Þar munu eftir
undursamlegar
gullnar töflur
í grasi finnast,
þær er í árdaga
áttar höfðu."

Gott kvöld.
Spámaðurinn er horfinn sporlaust.
Enginn hefur séð hann síðan á Laugardag! Hann hefur ekki hitt einn einasta vin sinn! Hvar er hann niðurkominn? Hvað veldur?
Hafa næturtröll numið hann á brott? Hefur einhver hóra Satans sett hann í fjötra? Er hann kannski að líða vítiskvalir í klóm Hannibals Lecters í afviknum bílskúr á Seltjarnarnesinu? Hefur hann kannski læst sig inni í geymslu og er hægt og rólega að svelta til dauða? Hafa kettir kannski streymt innan um gluggan hjá honum og étið hann? Situr hann kannski dauður á salerninu eins og fyrri Messíasinn (Elvis), eða kannski hafa ógnarvinsældir Rassgathole stigið honum til höfuðs og hann að geyspa golunni í baðkari í París á vængjum heróíns og brenglaðra kynlífsathafna? Er hann á kojufylleríi eins og Simbi sjómaður og glasið orðið honum kært sem góðum sálum paradís?
Eða er hann kannski búinn að týna öllum símanúmerum vina sinna (sem voru öll geymd í gsm síma sem er horfinn líka), er aldrei heima og engin leið að ná í hann?

Ætli það sé í raun ekki kominn tími á að fara að lifa eins og forfeður okkar, þegar að loftkeyti og kveðjur í gegn um "óskalög sjúklinga" voru eini samskiptamáti fólks?
Spámaðurinn hefur amk. aldrei heyrt um neinn sem fékk heilakrabbamein af því að hlusta á ríkisútvarpið.
Svo að ef einhver vill ná í Spámanninn getur hann bara keypt sér skjáauglýsingu eða dobblað Gerði B. Bjarklind til þess að lýsa eftir honum...

Svo fylgdist Spámaðurinn með fréttum af stórbrunanum sem hélt honum frá skólanum í gær. Morgunblaðið var með makró (úr fjarlægð) umfjöllun en DV með míkró (í nálægð) umfjöllun. Makró umfjöllun: "600 manns þurftu að yfirgefa heimili sín vegna reykjar frá brunanum, viðtal við slökkviliðsstjóra Reykjavíkur, myndir af hjálparsveitarmönnum með gasgrímur"...osfrv. Míkró umfjöllun: "Sigríður Sigurðsdóttir flæmd af heimili sínu á meðan slökkviliðsmenn borðuðu pizzur (mynd af sjúkrabörum með pizzakössum á, eldur í bakgrunni, heilsíðumynd af andliti Sigríðar í nærmynd), á bráðamóttökunni tók á móti henni Jón Jónsson morfínlæknir (sem er einnig nafntogaður vítisengill og handrukkari )"osfrv...
Sem betur fer töpuðust engin handrit í þessum bruna... En Spámaðurinn hefur heyrt fregnir af því að megn reykjarlykt sé þó í vinnuplássi sínu eftir brunann...En þar sem það var megn reykjarlykt af vinnuplássi Spámannsins fyrir brunann ætti það ekki að koma að sök.




Monday, November 22, 2004


"Ósnotur maður
er með aldir kemur,
það er best að hann þegi."

Myrkur, frost og fjúk, enginn á ferli, Spámaðurinn kjagar eftir Grettisgötunni á leiðinni heim...
Spámaðurinn mætir föngulegri stúlku á gangstéttinni, augu þeirra mætast örstutt, hún er með falleg augu sem glitra. Ætli henni finnist Spámaðurinn fagur og virðulegur? Það örlar á guðdómlegu brosi í munnvikum hennar...Spámaðurinn roðnar...
Spámaðurinn ætlar að víkja úr vegi fyrir henni, en stígur á svellbunka, skrikar fótur og breikdansar örskotsstund þarna fyrir framan undrandi stúlkuna, líkt og skór hans séu smurðir með vaselíni, áður en hann tekst á loft, tekur svo hálfhring í loftinu með lappir þráðbeinar upp í loft. Spámaðurinn lendir svo með háum dynk, kylliflatur á bakinu með alla skanka teygða frá sér líkt og hann hafi ætlað að búa til engla í snjóinn fyrir þessa ókunnugu fegurðardís...
Undarlegt, hjáróma flaut berst frá bakpoka Spámannsins, sem breytist fljótlega í "hviss" hljóð eins og hljóðlátt lyftuprump... Sennilega heldur stúlkan að Spámaðurinn sé með kramið Smábarn í bakpokanum (brúsi af kveikjaragasi sprakk í bakpokanum).
Hún horfir á Spámanninn liggja við fætur sér og fellir svo dóm sinn: "Obbosí" segir hún.
Spámaðurinn skreiðist á fætur bölvandi, við skellinn beit Spámaðurinn í tunguna á sér, munnur hans fyllist blóði sem hann hrækir í snjóinn og heldur svo leiðar sinnar með það litla sem eftir er af kúlinu.




Saturday, November 20, 2004


"Er-a svo gott
sem gott kveða
öl alda sonum,
því að færra veit
er fleira drekkur
síns til geðs gumi."

Spámaðurinn hélt í veislu með skólasystrum sínum í gær...
Eftir það tók hinn klassíski darraðadans saurlífis og óeðlis í miðbænum og því liggur Spámaðurinn nú heima í þynnkuprumpi og ræfildóm, með tilheyrandi formælingum og heitstrengingum.
Það versta: Einhversstaðar, innan um glitrandi glerbrot, sígarettustubba og sofandi drykkjufólk, á gólfi einhverrar helvískrar búllu, liggur sími Spámannsins núna... Eða máski hvílir hann í vasa einhvers þjófótts úrþvættis.
Spámaðurinn er því kominn í hóp með ómálga kornabörnum, einu þjóðfélagsþegnunum sem baða sig ekki daglega í gulgrænni birtu hins örsmáa skjáar þessa asbests nútímans: GSM-símans.
Þetta þykir Spámanninum leiðinlegt þar sem samskiptatólið stefndi óðfluga í að verða verðmæt antík (sem gæti hugsanlega verið ástæðan fyrir því að einhver ákvað að slá eign sinni á hann) og um árabil þjónaði hann Spámanninum af trúlyndi og heilindum.


Einnig er þetta nokkuð mikið vesen fyrir Spámanninn, þar sem hann er gersamlega ófær um að muna símanúmer, og öll númer kunningja hans voru í símanum...Og að sjálfsögðu getur fólk ekki lengur teygt sig í símann og talað við Spámanninn hvar&hvenær sem er þegar þörfin eftir því að fá smjörþefinn af himneskri upphafningu andans kallar.

Spámaðurinn man hvað hann var hissa þegar að hann flutti aftur heim til Íslands frá Brussel Anno Domini 1998. Ísland hafði breyst...Óhugnanlegar fréttamyndir af hópslagsmálum í raftækjaverslunum birtust á sjónvarpsskjánum, Spámaðurinn skildi ekki fólk þó það talaði Íslensku, því Íslendingar kusu að tjá sig með frösum úr prógrömmum á borð við "Tvíhöfða" og "Fóstbræðrum", sem Spámaðurinn hafði að sjálfsögðu aldrei séð né heyrt. Skyndilega var bannað að reykja allstaðar, allir voru komnir með net-tengingu og enginn var maður með mönnum nema hann ætti Nokia síma og skúffu fulla af "frontum" fyrir öll tækifæri.
Spámaðurinn var ringlað úrhrak sem átti ekki gsm-síma, var ekki net-tengdur, skellti ekki uppúr með hinum á mannamótum þegar einhver varpaði fram frösum á borð við: "leigubílstjóri DAUÐANS!" og honum var hent út úr kringlunni fyrir að reykja á bekkjunum (Securitas hlustar ekkert á aumingjalegt væl á borð við "það mátti fyrir fjórum árum og öskubakkarnir eru ennþá hérna...og ég bara hélt að...").
Fyrstu mánuðina á Íslandi heyrði Spámaðurinn setningar eins og "Hefurðu ekki prufað þetta?", "hefurðu ekki séð það?" og "Þú verður að fá þér svona" út í hið óendanlega...
Því fór Spámaðurinn og keypti sér ódýrasta símann í búllunni, en hann var á stærð við dæmigerðann múrstein og var svipað þungur og múrsteinn líka... Svo sjaldgæft var fyrirbærið að fólki varð starsýnt á Spámanninn líkt og hann væri að senda telex.
Ferlíkið fékk nafnið "Mír" í höfuðið á Rússnesku geimstöðinni, en það fannst Spámanninum rosa sniðugt vegna stærðarinnar og úreldingarinnar sem síminn og geimstöðin áttu sameiginlega.
Það var "Mír2" sem hvarf í nótt...Stöðutákn Spámannsins í þjóðfélaginu.




Tuesday, November 16, 2004


"Níu man eg heima,
níu í viði,
mjötvið mæran
fyr mold neðan."

Gott kvöld.
Spámaðurinn er sannfærður um að kettirnir í hverfinu séu útsendarar norna sem hyggjast njósna um gjörðir Spámannsins. Amk er það mjög vinsælt sport hjá ferfætlingunum að troða sér inn um glugga hjá honum við öll tækifæri, og virðast þeir hörðustu jafnan geta troðið sér inn um rifuna á glugganum sama hve smá hún er.
Í árdaga var einn af ábúendunum hérna fugl og því ekki vinsælt að fá ketti inn, því tók Spámaðurinn upp á því að sletta smá vatni á kettina þegar þeir komu inn, og eftir þrjár slíkar uppákomur var sem samfélag kattanna hefði ákveðið að hér byggi illur maður sem skvetti hinum hataða vökva í andlit þeirra, og þeir hættu að láta sjá sig.
Nú hafa þeir hafið leikinn að nýju, og tvíeflst ef eitthvað er.
Hugsanlegt er þó að uppákoma gærkvöldsins hafi ákveðið fordæmisgildi og að heimsóknum þeirra fækki. En í gærkveldi lá Spámaðurinn í makindum sínum á sófanum með golden og tebolla og blaðaði í tímariti þegar hann heyrði skyndilega mikinn skarkala úr eldhúsinu, hann heyrði vatn skella á eldhúsgólfinu og svo hljóð sem líktist barnsgráti...
Spámanninum varð hverft við og hljóp strax inn í eldhúsið og sá undir iljarnar á rennblautum gesti sínum þar sem hann rauk út um eldhúsgluggann eins og hann ætti lífið að leysa.
Verksummerkin gefa til kynna að gesturinn hafi komið inn um eldhúsglugga Spámannsins og hafnað ofan í eldhúsvaskinum sem er beint fyrir neðan gluggann. Vaskurinn var fullur af hlandvolgu vatni og diskum.



Friday, November 12, 2004


"Á gengust eiðar,
orð og særi,
mál öll meginleg
er á meðal fóru."

Gott kvöld.
Útidyrahurð Spámannsins er hætt að ljúga að umheiminum: Hér býr aðeins Spámaðurinn og enginn annar og útidyrahurðin staðfestir það nú.
Spámaðurinn keypti sér forláta spjald sem ber nafn hans og kippti niður spjaldinu sem var þar fyrir, spjaldi sem tilkynnti vegfarendum að hér byggju tvær manneskjur.
Í þetta sinn er nafn Spámannsins þó grafið í piparsveinslegt svart plast í stað fjölskylduvæns og glitrandi málms.

Annars er lítið að frétta af Spámanninum. Hann er kvefaður og komið er í hann skammdegisþunglyndi, svo hann hafði ekki geð í sér til þess að halda í sumarbústað með stórum hópi fagurra fljóða (og einum ofvirkum karlkyns fulltrúa Spánarveldis) en hefur þess í stað eytt kvöldinu yfir ævafornum kvikmyndum og rjúkandi tebolla.
Deginum eyddi Spámaðurinn hinsvegar í nostalgískar sögur af eignaspjöllum og hetjudáðum með einum af heimadrengjum sínum á kaffihúsi.


Mynd: Breiðholtsprinsinn færir fram mótrök í ritdeilu


Tuesday, November 09, 2004


"Illt er með ásum,
illt er með álfum;
hefir þú Hlórriða
hamar um fólginn?"

Gott kveld.
Spámaðurinn hlýtur að líta út fyrir að hafa þungar áhyggjur af framtíð sinni, eða vera í dauðaleit eftir viðbótarlífeyrissparnaði.
Hvort sem það er tilfellið eður ei, þá hafa menn í jakkafötum nálgast Spámanninn þrisvar á síðustu tveimur dögum og spurt hvort hann hafi áhuga á viðbótarlífeyrissparnaði.
Allir fóru þeir undan í flæmingi þegar innt var eftir hvort listamenn ættu rétt á lífeyri eftir allar innsetningarnar og gjörningana. Einn þeirra endaði samtalið samstundis með orðunum "nú já" og sneri sér síðan undan.



Friday, November 05, 2004


Mynd: Neikvæð gagnrýni


This page is powered by Blogger. Isn't yours?    Site Meter