<$BlogRSDURL$>

Friday, December 31, 2004AFSAKIÐ HLÉSaturday, December 18, 2004


"Brestanda boga,
brennanda loga,
gínanda úlfi,
galandi kráku,
rýtanda svíni,
rótlausum viði,
vaxanda vogi,
vellanda katli"

Gott kvöld.
Spámaðurinn fór út með félaga sínum í gærkvöldi með félaga sínum. Spámaðurinn sá fram á rólegt kvöld í rökræðum yfir ölkrús. En nei...Félaginn er af erlendu bergi brotinn, og Spámaðurinn hafði einhverntímann lýst fyrir honum soranum sem finnst á ákveðnum stöðum í Reykjavík. Þó félaginn hafi búið hér um árabil hefur hann ekki séð vafasömustu hliðar Reykjavíkur og vöktu lýsingar Spámannsins svo mikla forvitni og skemmtan að hann einfaldlega varð að sjá slíkt með eigin augum.
Því var Spámaðurinn dreginn, maldandi í móinn, á einn af vafasamari skemmtistöðum bæjarins. Þangað hafði Spámaðurinn reyndar ekki komið áður (þú vissulega hafi hann séð vafasamar búllur áður), en þrátt fyrir það sveik staðurinn ekki fyrirheit um ógeðfellt svínarí og allt það... Litlar eftirmyndir Birgittu Haukdal vöfruðu um í kókaínvímu, brillíantínsleiktir gígolóar sendu hvor aðra heim í sjúkrabílum og drykkjudauðir táningar lágu eins og hráviði á gólfinu. Öðru hverju braust út ofbeldi og vofleg ofbeldisverk voru framin vegna ágreinings um kvenpening, bjór sem sullaðist niður eða sætaskipan.
Klósettin eru alveg kapítuli út af fyrir sig, þau eru í raun ekki klósett...Þar skiptast menn á að vera voða æstir og segjast ætla lemja einhvern á meðan félagarnir halda um axlir þeirra og segja þeim að vera rólegir. Svo er skipt um hlutverk og einhver hinna rólegu fer að æsa sig á meðan vinir hans (sem eru þá búnir að taka út sína umferð af æsingi) reyna að sefa hann. Hlandskálarnar eru svo notaðar sem ruslafötur, en vaskarnir til að æla í. Það er ráðlegt að vera ekkert mikið að velta því fyrir sér hvaðan allt vatnið á gólfinu kemur. Kamrinum með hurðinni (útskýring fyrir kvenkyns lesendur hins heilaga boðorðs rassgathole: Á karlaklósettum eru yfirleitt nokkrar hlandskálar og svo ein eða tvær hurðir fyrir þá sem vilja ekki gera #2 í hlandskál eða vask) er eiginlega ekki hægt að lýsa með orðum, en þar blasa við lífsýni og vessar úr öllum líkamsopum og iðrum mannskepnunar.
Spámaðurinn varð líka var við undarlegt form vændis þarna, karlmenn virtust geta gert hvað sem er með hvaða stúlku sem er, en gjaldið var í formi þess að risavaxni sjóarinn sem er kærasti stúlkunnar limlesti þá svo eftir á.

Spámaðurinn hélt heim frekar snemma, kvöldið skildi eftir sig undarlegt eftirbragð...


Wednesday, December 15, 2004


"Nú frák norðr í eyju,
norn erum grimm, til snimma
Þundr kaus þremja skyndi,
Þórólf und lok fóru"

Gott kvöld.
Rauðarárstígurinn er hliðstæð vídd við okkar...Fimmta víddin. Á Rauðarárstíg eru allir steyptir í sama mót óháð bakgrunni þeirra eða fjárhagsstöðu. Um leið og þú stígur út á hann breytist þú og verður alveg eins og allir hinir á Rauðarárstígnum alveg sama hvort það er að kvöldi eða morgni. Andlit þitt verður fölt og þreytulegt eins og andlit allra hinna, eins og þú hafir verið að vinna frammeftir í skítadjobbi eða verið að lepja upp úr kardóglasi alla nóttina... Undir augum þínum birtast dökkir baugar. Milli fingra þinna birtist sígaretta, allir eru með sígarettu á Rauðarárstíg (meir að segja róninn sem biður þig um sígarettu er með sígarettu í munnvikinu). Þú starir á gangstéttina fyrir framan þig þegar þú mætir fólki, alveg eins og allir hinir gera, og allir ganga í þögn, enginn segir neitt. Eina fólkið sem er öðruvísi en hinir er fólkið sem situr inni á Svarta Svaninum, sem minnir Spámanninn alltaf á fiskabúr, þar sem fólk situr hinu megin við glerið og starir út á meðan munnar þeirra opnast og lokast á víxl eins og á gullfiskum þegar það tyggur hamborgarana sína.
Um leið og þú beygir út af Rauðarárstígnum hverfa baugarnir, sljólegi þreytusvipurinn á andliti þínu gufar upp, það drepst í sígarettunni og fólk sem þú mætir eru ekki lengur þreytulegir draugar sem stara á jörðina.
Ó vei þér ef þú ert yfir þrítugu og stígur á þennan álagablett, því þá eldist þú samstundis um 40 ár og finnur til undarlegrar löngunar til að týna upp plastflöskur eða það losnar um nokkrar skrúfur í höfði þér og þú ferð að muldra við sjálfa/nn þig.
Sumir hafa gengið svo langt að segja að baráttan milli góðs og ills birtist hér ljóslifandi fyrir augum okkar í formi þeirra þjónustuaðila sem hafi aðsetur á Rauðarárstígnum: Að Gullnáman, Svarti-Svanurinn, Kaffi-Stígur, Gallerí-Fold og Draumurinn séu í liði Kölska og sogi til sín drykkjurúta og eiturlyfjaneytendur á meðan Fiskbúðin, bakaríið, Kaupmaðurinn á horninu og Geislavarnir Ríkisins skipi sér í lið hins góða og hái orrystu gegn hinum illu öflum... Þessu er Spámaðurinn ósammála...Hann telur að þarna sé allt í hinu fullkomna jafnvægi. Eins og ying&yang. Útkoman er sú að allir verða gráir. Ekki vondir, ekki góðir...bara gráir.
Monday, December 13, 2004


"Villist vættir,
verði ódæmi,
hristist hamrar,
heimr sturlist,
versni veðrátta,
verði ódæmi,"

Gott kvöld.
Spámaðurinn átti að vera að skrifa ritgerð í dag, en hélt þess í stað á kaffihús með félaga sínum. Ritgerðin verður skrifuð á morgun í panikki.
Spámaðurinn og félagi hans eru báðir í fýlu út í lífið og tilveruna og því urðu samræður þeirra á örskammri stundu að neikvæðu svartagallsrausi, og urðu svo að metingi um hver hefði gert verri og neyðarlegri fyllerísskandala.
Þarna voru ýfð upp mörg gömul sár... Eins og til dæmis þegar að draugfullur Spámaðurinn var búinn að sjarmera fagra stúlku upp úr skónum á barnum, svo skrapp Spámaðurinn á klósettið. Á meðan Spámaðurinn var að sinna kalli náttúrunnar gleymdi hann hvernig stelpan leit út...Og greip svo í vitlausann rass þegar hann kom aftur á barinn.
Já...Margar neyðarlegar upplifanir úr fortíð þeirra kumpána í darraðadansi næturlífsins voru rifjaðar þarna upp...
Einnig var það mál Spámannsins og félagans að þjónustan sem Virgin-Mobile símafyrirtækið í útlandinu býður upp á sé nokkuð sniðug. En hún felst í því að viðskiptavinurinn getur gert ákveðin símanúmer óvirk á föstudags- og laugardagsnóttum og þannig komið í veg fyrir að viðskiptavinurinn hringi úr fylleríi í einhvern sem hann ætti ekki að hringja í. Samkvæmt könnunum fyrirtækisins hafa 95% farsímanotenda hringt í einhvern sem þeir hefðu betur viljað sleppa að hringja í þegar þeir voru ofurölvi.
Því er ljóst að gemsagaurarnir eru nútímaútgáfan af hinum alræmdu "korter-í-þrjú-gæjum". Spámaðurinn hefur fengið slík símtöl...Og Spámaðurinn játaði líka skýlaust skömm sína, að hann væri einn af þessum 95% sem hefði einhverntímann hringt slík símtöl (ekki það að Spámaðurinn stundi slíkann sora, en það hefur komið fyrir öööörsjaldan). Félagi Spámannsins játaði líka með skömm að hann hefði orðið uppvís að slíku. Svona pathetic booty-köll einhver.
Handritið að svona dæmigerðu símtali væri eitthvað á þessa leið:

Hitt kynið: "Halló?" (Klukkan hálf-fimm á laugardagsnóttu)

Spámaðurinn: "Hvað segirðu gott? Ertu að djamma?" (Þvoglumæltur og augljóslega draugfullur, í bakgrunni heyrast drykkjulæti og hávær tónlist)

Hitt kynið: "Aggi? Ert þetta þú?"

Spámaðurinn: "Ha...Já...mmmmh...þekkiru mig ekki? Langt síhðan maðurh hefur heyrt í þhér!" (Í bakgrunni heyrist flaska skella á vegg og brotna)

Hitt kynið: "Ertu fullur?"

Spámaðurinn: "Ha...Nje...ja...Neihneih...Fékk mér tvo bjóra" (Enn óskýrara og þvoglumæltara)

Hitt kynið: "Víst ertu fullur!"

Rödd í bakgrunni hjá Spámanni: "Komdu Aggi við erum að fara yfir á 22"

Spámaðurinn: "Drullaðu þér hættu farðu! Ég er að tala í símann! Klára bjór! Nei sko ekki þú...ég var að tala við gaur...Má fara með bjórinn út?"

Hitt kynið: "Hvað er að gerast?"

Spámaðurinn: "Má ég kíkja í heimsókn?"

Hitt kynið: "Nei!"
Saturday, December 11, 2004


"Öl var drukkið,
sumt var ólagað:
Sjaldan hittir leiður í lið."

Það er knattspyrnuleikur í höfði Spámannsins, leikmennirnir eru tröll... Spámaðurinn eyddi deginum á brókinni á sófanum með melrose og golden, fullur iðrunar og fyllerísmórals.
Spámaðurinn hélt aftur í kaotíska hringiðuna og darraðadans drýslanna í nótt eftir að hafa mélað andstæðinga sína í Fimbulfambi.
Skólasystur Spámannsins hristu botninn á dansgólfinu á meðan Spámaðurinn slangraði um og sullaði bjór yfir vegfarendur og sjálfann sig í takt við danstilburði mannshafsins á sirkúsnum.
Spámaðurinn skreið svo heim á maganum þegar komið var undir morgun.

Eftir gærkvöldið er stelpa einhversstaðar sem heldur að Spámaðurinn hafi spilað á saxófón í hljómsveitinni Skítamórall áður en hún varð fræg, en hafi svo yfirgefið hljómsveitina vegna "listræns ágreinings".


Thursday, December 09, 2004


"Blóðugt er hjarta
þeim er biðja skal
sér í mál hvert matar."

Gott kvöld...
Epísk myndlist sem mun lina þjáningar sjúkra verður afhjúpuð á morgun. Sýningin ber nafnið "Aggi's harem". Spámaðurinn er eiginlega á báðum áttum varðandi þetta nafn, valdi kúratorinn það vegna þess að hann er eini karlmaðurinn sem tekur þátt í sýningunni eða vegna þess að allar konur ásælast bert hold Spámannsins?
Spámaðurinn er búinn að vinna stíft við að leggja lokahönd á framlag sitt til sýningarinnar, en í vinnunni fólst að koma mynd niður í 20x30 reiti, sem er meira en að segja það, því það tók Spámanninn heila tvo daga! Spámaðurinn er búinn að horfa á svo mikið af pixluðu kvenfólki í lágri upplausn á tölvuskjánum að hann er eiginlega farinn að finna til undarlegra hvata. Ætli hann verði ekki stunginn í augað með glerbroti þegar hann fer að lofa pixlanotkun eða upplausn einhvers kvenmannsins í darraðadansi helgarinnar? (þú ert með rosalega skörp/skarpann *insert líkamshluta* miðað við útgáfudag).

Mynd: Næturlíf með augum Spámannsins (og Spámaðurinn með núll stig)

Spámaðurinn skrapp líka nokkrum sinnum á kaffihús til að hvíla augun frá pixlakjaftæðinu og las blöðin...Helst moggann, DV ef Mogginn er upptekinn ("Gengur Dorrit með barn Stórfóts?"). Spámaðurinn les alltaf Dagbók lögreglunnar því hann hefur gaman af lýsingum á geðveikislegri hegðun, ölæði og undarlegheitum landa sinna. Lýsingar lögreglumanna á afbrigðileika miðborgarinnar á möppudýrsmálinu sem notað er í dagbókinni er hin besta skemmtun.


Dagbók lögreglunnar um helgina:"Síðdegis á laugardag var kona á áttræðisaldri handtekin vegna veggjakrots í miðborginni."

Thursday, December 02, 2004


"Fróður þykist
sá er flótta tekur
gestur að gest hæðinn."

Gott kvöld.
Spámaðurinn var í lágdeyðu. Fangaður í óheilbrigðri hringrás keðjureykinga, andvökunátta, teþambs og brennisbruðnings... Dagarnir voru orðnir gráir, litlausir og liðu löturhægt. Spámaðurinn var aðgerðarlaus og forðaðist helst að fara í sokka allann daginn, og þá sjaldan hann varð uppiskroppa með eitthvað hljóp hann fölur og sokkalaus út í sjoppu og svo beint heim aftur. Fyrir innan gluggana er ský af golden og ofnarnir í botni, fyrir utan gluggana streymir ógeðisslor af himnum ofan sem gerir Spámanninn blautann í fæturna. Það eina sem braut upp þessa hundleiðinlegu tilveru voru einstaka kaffihúsaferðir, bókalestur og sá leiði vani Spámannsins að fara í loftköstum um skautasvellin sem gangstéttir borgarinnar eru (helst í viðurvist fagurra fljóða). En svo helltust skyndilega yfir hann himneskar hugmyndir í massavís...Og Spámaðurinn hefur nú rifið sig upp úr lágdeyðunni og er farinn að rífa sig upp eldsnemma á morgnana og slafra í sig súrmjólk með tálkvendum ríkisútvarpsins, þeim Gerði B.Bjarklind og Ninu Simone, og fremja svo myndlist af miklu kappi.
Sennilega mun þessi mikla myndlist breyta viðhorfa mannfólksins til mannkynssögunar, viðhorfi þess til lífins og lækna svo krabbameinssjúka af handahófi.
Nú barst Spámanninum til eyrna fyrir skömmu að einhverjir smartass-ar séu að mótmæla listamannalaununum með því að stofna "gjörningahóp" sem ætlar svo sækja um umrædd laun og svo skila öllum peningunum til skattgreiðenda (væntanlega svo hægt sé að nota þá til að styrkja íþróttamenn og aðra afreksmenn sem eru í "alvöru" vinnu). Sniðugu pólítíkusarnir bera því við að artí-liðinu sé haldið í fjötrum ríkisins og geti í raun ekki verið frjálst fyrr en það fetar slóðina sem Tolli® og Kogga hafa troðið fyrir oss: Þeas. Að lifa á því að selja myndlist sína (nota bene: Spámaðurinn hefur ekkert á móti Tolla og Koggu, Holdgerfingur Guðdómleikans elskar alla jafnt). Spámaðurinn væntir mikils frá þessum ungu pólítikusum framtíðarinnar... Auðvitað munu þessir sniðugu forstjórasynir taka næsta rökrétta skrefið í þessum gjörningi sínum: Að skapa myndlist og lifa á henni, til þess að sýna okkur hinum hversu auðvelt það er.
En nóg um pólitík, það er löngu búið að sanna að pólitík virkar ekki...Hvað ætli gerist ef maður hlustar á "Total Eclipse of the Heart" á hverju kvöldi? Ætli maður lifi þá að eilífu? (þar sem eilífðin hefst á hverju kvöldi). Og ef að lykillinn að ódauðleikanum er "Total Eclipse of the Hearth", er lífið þá þess virði að lifa því?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?    Site Meter