<$BlogRSDURL$>

Monday, September 04, 2006


"Vits er þörf
þeim er víða ratar."

Gott kvöld.
Spámaðurinn ákvað að söðla um og fá sér nýtt starf. Tilraunaglasauppvaskið er orðið nokkuð þreytt. Spámaðurinn skoðaði atvinnuauglýsingar vel og lengi en sá fátt sem maður með myndlistarmenntun gæti nýtt sér. Jú, hann gæti farið til Raufarhafnar að kenna myndlist, en honum líkar of vel í norðurmýrinni til þess.
En dag einn rak Spámaðurinn augun í hið fullkomna starf. Bókavörður. Hvað gæti mögulega verið betra en að sitja í musteri bókvitsins og handleika forna visku alla daga? Hvað er meira seiðandi renna fingrum sínum með munúð eftir fornum kjölum vitandi að maður er meistari vísdómsins? Að leggja eyrað að bókahillu og heyra óljóst forna rödd Jaroslavs Haseks í gegn um myrkur aldanna að biðja um meiri bjór? Að finna viskuna flæða um gólfin og upp leggina, alveg upp í hús sálarinnar? Er hægt að finna verðugra starf?
Fyrir rúmri viku samdi hann umsókn sem hann tróð í umslag ásamt meðfylgjandi bréfum fyrri meistara sem lofuðu hann og prísuðu í hástert. Og fyrir tæpri klukkustund kom svarið inn um lúguna:

Spámaðurinn er of hæfur...

OF HÆFUR?

Jú, Spámaðurinn er einfaldlega of góður til að handleika viskuna! Allt of framarlega í andlegum efnum til þess að þurfa að ómaka sig við tittlingaskít eins og bækur! Of menntaður til að þurfa á lestri að halda!

Spámanninum leikur forvitni á að vita hver það var sem skoðaði bréf hans og hugsaði: "Þessi gaur er að vaska upp tilraunaglös á lansanum fyrir skít á priki...Hann er of góður fyrir okkur".

Hvað þarf til að fá vinnu sem bókavörður? Sakaskrá?
Friday, September 01, 2006


"Deyr fé,:
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn
að aldrei deyr
dómur um dauðan hvern."

Gott kvöld.

Satan tók sér bólfestu í líkama Spámannsins í byrjun vikunar. Undanförnum dögum hefur Spámaðurinn eytt liggjandi á fleti sínu í krampakenndum hóstaköstum, guðlastandi og tuldrandi særingar fyrir munni sér.
Dagar Spámannsins hafa því einkennst af vanlíðan, hori og félagslegri einangrun. Kaffi, bjór og sígarettur bragðast eins og kverkaskítur...Matur eins og frauðplast.

En í dag fór að rofa til, konungur undirheimanna yfirgaf loks lemstraðann kropp Spámannsins og hann reis úr rekkju eins og fuglinn Fönix. Seint um kvöldið ákvað Spámaðurinn að hann væri orðinn rólfær.
Spámaðurinn var orðinn tóbaksþurfi, og klukkan var margt. Hann tók stefnuna á alræmda búllu handan við hornið til að kaupa sér lucky strike og hálfstöflur. Fyrstu andlitinn sem Spámaðurinn hefur séð í fimm daga voru andlit kaupmannsins og kerlingarinnar sem hann var að reka út úr kíósknum sínum.
Fyrstu orðin sem Spámaðurinn heyrði þegar hann kom aftur út í siðmenninguna voru sumsé kerling nokkur að þruma yfir hausamótum kaupmannsins um að hún ætlaði að kæra hann fyrir að henda sér í veg fyrir strætó. Á meðan hún öskraði sönglaði kaupmaðurinn "það er kominn seytjándi júní" háðslega. Að lokum fékk Kaupmaðurinn nóg af gagnrýni hennar og kom með uppástungu: "Drullaðu þér út merin þín". Svarið var á þessa leið: "Misstu barn á miðjum vegi!"... Spámaðurinn skaut erindi sínu að kaupmanninum meðan hann og hinn viðskiptavinurinn söfnuðu vindi og orðaforða til að halda áfram: "Svona hálfstöflur og einn lökkí stræk takk" svarið var: "Hún var að reyna að stela". Spámaðurinn heyrði enn hrópin í þeim þegar hann var hálfnaður heim til sín og velti því fyrir sér hvort mannleg samskipti væru kannski ofmetin.Spámaðurinn ku einnig vera ári eldri en hann var um daginn.

Spámaðurinn ákvað að því tilefni að bera afrek sín saman við það sem aðrir afrekuðu þegar þeir voru jafngamlir honum:

Kurt Vonnegut gerði skrifin að aðalstarfi sínu, Gagarín flaug útí geim fyrstur manna, Ernest Hemmingway gaf út skáldsögu, William Mortin uppgötvaði áhrif ethers á mannslíkamann og Piero Manzoni skeit í niðursuðudósir og seldi þær.
27 ára...Spámaðurinn ætti kannski að fara að drulla sér að gera eitthvað?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?    Site Meter