<$BlogRSDURL$>

Friday, April 22, 2005


"Vort líf er grasgarðs ganga rétt.
Gröfin er öllum takmark sett.
Syndugra leið ei leik þér að.
Lendir hún víst í kvalastað."

Gleðilegt sumar.
Vorboðinn í götu Spámannsins er komin. Það er göldrótt kerling sem er gædd þeim skrítna eiginleika að standa alltaf í sömu sporum í garðinum sínum dag eftir dag af góðri ástæðu. Hún stendur sumsé alltaf á nákvæmlega sama stað. Hún er samt alltaf að gera eitthvað sem virðist vera góð ástæða fyrir því að standa þarna. Hún á risastórann garð, en stendur alltaf á sama stað að dútla. Einn daginn er hún með arfa í fötu, annan dag er hún með slöngu að vökva, eða að toga svarta ruslapoka af rúllu...osfrv. Ætli það sé hægt að "feika" sig svona í gegn um lífið? Að þykjast vera á einhverjum stað af góðri ástæðu frá vöggu til grafar? Að standa í garðinum í sömu sporum, uppfullur af stóískri ró og vera engum til ama?
Spámaðurinn fagnaði vorinu með því að saurga líkama sinn og sálu að aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Í kjölfarið hófst sumarið með timburmönnum sem Spámaðurinn myndi ekki óska versta óvini sínum, með tilheyrandi höfuðverk, flekkuðu mannorði, tómu veski og nístandi samviskubiti... Álfar, tröll, skessur, blómálfar og önnur heiðin afkvæmi Satans sprönguðu um öldurhús syndanna þessa fyrstu sumarnótt og böðuðu sig í flaumi vínanda, uppgangs og sígarettustubba.


Annars líður senn að því að Spámaðurinn yfirgefi mengunina, glæpina og klíkustríðin í borginni og haldi til vinnu úti í sveit...Merki hans er stál og hnífur. Mjólk úr spena, berar álfkonur, lömb í haga og frussandi fjallafossar bíða hans í faðmi móður náttúru. Spámaðurinn ætlar að eyða miklum tíma í að busla í ánni, púa golden uppi á fjallstindum og dansa allsber á engjum. Reyndar hefur Spámaðurinn nokkuð vafasama reynslu af slíku, en hann kom eitt sinn ansi nærri því að tapa líftórunni þegar hann var allsber að fökkast í móður náttúru. Þannig var mál með vexti að Spámaðurinn ferðaðist eitt sinn til spánskrar eyju (mæjorka) með nokkrum spænskum félögum sínum. Hópurinn hélt út á yfirgefna strönd fjarri allri byggð þar sem var tjaldað og kveiktur varðeldur. Spánverjarnir voru miklir hippar. Spámaðurinn og nokkrir aðrir Spánverjar voru nokkuð við skál þegar einn Spánverjinn manar alla til þess að stinga sér til sunds án klæða... Spámaðurinn svamlaði með Spánverjunum aðeins út frá ströndu og tróð þar marvaða með þeim í sjónum. Svo ákveður Spámaðurinn að synda smá hring. Spámaðurinn, gersneyddur skynsemi, ákveður að synda aðeins lengra og gleymir sér. Skyndilega áttar Spámaðurinn sig á því hversu mikil vandræði hann er kominn í og hann verður órólegur. Það er kolniðamyrkur og hann sér ekki til lands og heyrir ekki í neinum...Auk þess veit hann ekki í hvaða átt landið er. Áttu þetta að verða örlög hans? Að drukkna kviknakinn í miðjarðarhafinu um hánótt? Yrði klæðalaus líkami hans dreginn úr sjónum að morgni eins og feitur fiskur? Spámaðurinn tróð marvaða í sjónum um stund og velti fyrir sér valmöguleikum sínum... Krakkarnir með honum voru háværir, og fyrst ekki heyrðist til þeirra hlaut hann að vera ansi langt í burtu frá öllum. Hann tók á endanum þá ákvörðun að synda í þá átt sem hann minnti að ströndin væri í... Hann minntist sagna af hafmeyjum, kolkröbbum, marglyttum og öðrum ófétum sem væru án efa æst í að sökkva tönnum sínum í mjúkt og næringarríkt Spámannshold. Eftir nokkra stund sá hann móta fyrir landi, en þegar hann tók land áttaði hann sig á því að hann hafði tekið vitlausa stefnu og hann væri langt frá vinum sínum, fötum sínum og allri siðmenningu. Hann vildi ekki aftur í sjóinn svo hann paufaðist í myrkrinu eftir skógi vaxinni ströndinni í heila eilífð, allsber, hundblautur, hálfdrukkinn og þreyttur í áttina að varðeldinum sem hann sá í fjarska.


Wednesday, April 13, 2005


"Ó, þér unglinga fjöld
og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð
fallin í gleymsku og dá!"

Gott kvöld.
Spámanninum er orðið ljóst að hið illa svífst einskis í baráttunni við ljósið. Kölski hefur hreðjatak á tollstjóra og liggur í augum uppi að tollararnir eru allir skósveinar Satans sjálfs sem spinna djöfullega lygavefi og brugga launráð til þess ætluð að fá Frelsara Mannkindar® til að ganga af göflunum.
Eins og áður hefur komið fram í Rassgatholusarguðspjalli heldur Spámaðurinn sér gangandi á tveimur hugvíkkandi ofskynjunarlyfjum: Melrose og Golden. Sökum þess að vér búum á skítaskeri hefur Golden verið ófáanlegt á landinu í meira en mánuð (sending föst í tollinum af einhverjum ástæðum). Spámaðurinn notaði Drum sem hækju á meðan hallærið gekk yfir. Adam var ekki lengi í paradís, því innan skamms var drum einnig með öllu ófáanlegt á landinu. Þá brá Spámaðurinn á það ráð að endurvekja gamlann Brusselskan ávana og byrjaði að púa Gauloises þess í stað (sem er ljótur, ljótur ljótur ávani sem veldur gulum fingrum og ullabjakkhósta, auk þess sem að Spámaðurinn hefur óljósan grun um að langvarandi neysla breyti neytandanum hægt og sígandi í frakka)... Og það var eins og við manninn mælt: Innan skamms var vara þessi líka ófáanleg í öllum verslunum. Við þessi tíðindi hóf Boðberi Fagnarðarerindisins ásjónu sína til himnins og mælti "Faðir! Hví hefur þú yfirgefið oss?". Spámaðurinn er nú að íhuga mótmælareykbindindi (sjáum hvernig ríkinu reyðir af þegar Spámaðurinn hættir að dæla námslánunum sínum í kóng og prest, ha!!!).En nóg um sérþarfir Spámannsins... Það er frekar tíðindalaust á vígstöðvunum í norðurmýrinni. Spámaðurinn hamast við að smíða guðdómlega karmahjólið sem mun samræna lífstón alheimsins á útskriftarsýningunni miklu.
Börn gengu um norðurmýrina í dag að reyna að selja epíska myndlist. Tvö stúlkubörn kölluðu á eftir Spámanninum þegar hann yfirgaf íbúð sína í dag. Önnur þeirra hélt á risavaxinni eftirprentun af málverki af naktri konu í ramma og spurði: "Viltu kaupa málverk á þrjúhundruð kall?". Spámaðurinn svaraði: "Vinir mínir myndu stríða mér ef ég færi að hengja myndir af allsberum konum upp á veggina hjá mér". Þær voru greinilega vanar sölumennsku auk þess að vera vel að sér í hinum fögru listum: "En þetta er ekki svoleiðis, þetta er list"..."Þetta er eftir einhvern Goya" bætti hin stelpan svo við eftir smá þögn. "Er hann frægur?" spurði Spámaðurinn. "Já Rosalega" svaraði barnið á innsoginu. Spámaðurinn afþakkaði og gekk eftir gunnarsbrautinni. Hann velti fyrir sér hvort hann hafi látið einstakt tækifæri til að verða sér úti um orginal eftir Goya renna sér úr greipum...?


Saturday, April 09, 2005


"Dulsa konr
eftir dvergi hljóp,
og salbjartr
þeirra Sökmímis
jötunbyggðr
við jöfri gein."

Gott kvöld.
Spámaðurinn hélt í fjörðinn hýra í dag. Spámaðurinn fór og drakk kaffi í hinni fyrrverandi alræmdu svallbúllu sem forðum bar nafnið "kaffi fjörður" en ber núna eitthvert nýaldarlegt kaffimaníunafn á borð við "kaffi sólskin". Eftir þá reynslu varð Spámaðurinn hálf svartsýnn og fúll... Kaffi Fjörður var alvöru ógeðisbúlla. Þarna drakk Spámaðurinn gjarna kaffibolla á morgnana áður en hann hélt í gulu kjötfutningsvagnana sem báru hann í breiðholtið til að súpa af vísdómsbrunninum sem FB er og var. Kaffið bragðaðist alltaf eins og uppgangur, súr bjórþefur og hljóðin sem fylgja smápeningaáti spilavíta rauða krossins fylltu loftin á meðan kófdrukknir sjómenn rákust utan í borð og bölvuðu þjóðfélaginu. Í dag er staðurinn snyrtilegur, allt er rjómalitt og glansandi og þéttsetið af fjallmyndarlegum ungum mönnum með tögl í hárinu, sem hræra með hálfum hug í latté bollunum sínum á meðan konur koma við á leið heim úr jógatímunum sínum til að púa caprí og drekka koffínlausa sojaexpressóa með valhneturjóma. Moby og Enya trylla lýðinn í stað Bubba ("aldrei fór ég suður" virtist af einhverjum ástæðum vera á endalausri lúppu þarna í gamla daga)og í stað hins úrilla starfsfólks með þreytuleg augnaráð þeirra sem hafa séð *allt* er komið snyrtilegt starfsfólk með þjónustulund sem skrúbbar borðin og skreytir kökur.
Nú er ekki svo að skilja að Spámanninum líði neitt betur innan um skorpulifrarsjúklinga og spilafíkla...Alls ekki. Slíkt gæti ekki verið fjær sannleikanum. En það má deila um hvor kúnnahópurinn er skuggalegri. Ætli svona "fegranir" séu ekki orðnar hluti af daglegu lífi okkar. Hafnarfjörðurinn hefur alltaf verið cutting-edge: Brátt verðum við öll steypt í eitt mót. Holl, kaloríulaus, koffínlaus, reyklaus, græskulaus, grunlaus... Spámaðurinn vonar bara að enginn stígi á taglið hans meðan hann liggur á jógamottunni.


Monday, April 04, 2005


"Brá eg úr slíðrum
skálm nýbrýndri,
þeirri lét eg Mávi
á maga hvotað."

Gott kvöld.
Spámaðurinn er hinn fullkomni nágranni: Lágvær, reglusamur, tillitsamur og fagur á að líta...Þangað til í dag.
Norðurmýrin lék á reiðiskjálfi í morgun. Íbúar efri hæða hússins hafa eflaust vaknað við herlegheitin. Þannig var mál með vexti að Spámaðurinn hélt fyrirlestur í morgun og óttaðist að vakna ekki á réttum tíma í morgun sökum andvöku og þreytu, svo Spámaðurinn notaði hvert einasta trix sem hann kann til þess að vera alveg handviss um að vakna. Spámaðurinn svaf sumsé á stofusófanum í stað þess að sofa í bælinu eins og venjulega (maður vaknar frekar ef maður sefur á stað sem maður er ekki vanur að sofa). Á slaginu hálf átta hóf vekjaraklukkukór upp háværa raust sína (3 vekjaraklukkur sem var raðað strategískt á sófaborðið), auk þess vældi farsími Spámannsins (sem Spámaðurinn setti ofan í tómt glas til þess að titringurinn yrði sem háværastur) og heimasími, og svo ruddust ómþýðir tónar (Duke Ellington&félagar: "In The Mood" mjög hátt stillt) út úr hljómflutningstæki Spámannsins... En hvað fór úrskeiðis?
Spámaðurinn vaknaði nokkrum mínútum áður en kórinn rauf hljóðmúrinn. Spámaðurinn þrammaði fáklæddur eftir ganginum á leið inn í eldhús í leit að skyri og öskubakka þegar hávaðinn upphófst, Spámanninum krossbrá og sneri við á ganginum til þess að þagga niður í kórnum...Og gekk á poka fullan af tómum glerflöskum sem var á ganginum eftir teiti helgarinnar. Ef að nágrannarnir vöknuðu ekki við Duke Ellington og síma/klukkukórinn, þá vöknuðu þeir eflaust við þann háværa hvell og glamur sem flöskuglerið gaf frá sér þegar það rakst saman og sprakk í pokanum... Spámaðurinn hrasaði (en með gríðarlegri fótfærni tókst að detta ekki) samt nánast alveg hljóðlaust.Sunday, April 03, 2005


"Fleygði Óðinn
og í fólk um skaut,
það var enn fólkvíg
fyrst í heimi"

Gott kvöld.
Spámaðurinn hefur legið kjökrandi í fósturstellingunni meirihluta dagsins og hefur aðeins staðið upp einu sinni í dag, til þess að ná sér í ógeð af vafasömustu sort: júmbó pasta "salat" (það var örugglega ananasbiti þarna innan um mæjóið og skinkuna) og lucky strike úr draumnum á rauðarárstígnum...
Tóm drykkjarílát og flöskugler um alla stofu, lykt af súrum sígarettureyk og gömlum bjór smaug inn í vitund Spámannsins þegar hann loksins drattaðist á fætur í morgun.
Broti og broti af sódómískum darraðadansi djöfla og drýsla í miðbænum í nótt skýtur upp í huga Spámannsins öðru hverju. Formælingar og heitstrengingar fylgja í kjölfarið. Mánaðarmótin eru komin, ísskápurinn að springa utan af kræsingum, engin meiri sígarettuskömmtun, engin meiri stærðfræði í huganum áður en ferðast er með strætisvagni, engin "eina með öllu takk" í kvöldmat...Fuglar syngja, blómin ryðjast upp úr moldinni og nakinn Spámaðurinn rúllar sér upp úr morgundögg. Sumsé, það er kóalabjörn að kúka regnboga í heilann á Spámanninum.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?    Site Meter