Friday, February 18, 2005
"Synir Bors drápu Ými jötun, en er hann féll, þá hljóp svo mikið blóð úr sárum hans að með því drekktu þeir allri ætt hrímþursa, nema einn komst undan með sínu hýski."
Gott kvöld.
Spámaðurinn er búinn að vera að heiman. Foreldrar Spámannsins eru að heiman, og tölva Spámannsins er biluð, því hefur Spámaðurinn dvalið þar til þess að skrifa ritgerð sína á tölvu þeirra. Spámaðurinn er haldinn undarlegri nostalgíu þegar hann dvelur í Hafnarfirði.
Undarleg hljóð berast í náttmyrkrinu inn um glugga Spámannsins, hljóð sem hann var vanur, en er nú óvanur. Það er surgið sem berst frá sjónum, surg í flotbryggju og bátum. Einhvern daginn ætlar Spámaðurinn að kjaga niður að bryggju með fötu af smurolíu og smyrja allt sem fyrir verður...Þá verður þögn á næturna í Hafnarfirðinum.
Annars hefur dvölin verið einstaklega ljúf og Spámaðurinn hefur hagað sér sem versta afæta (En hvað eru synir og dætur svosem annað en afætur?)...Spámaðurinn hefur etið og drukkið úr ísskáp foreldra sinna, hlustað á plötur þeirra (kosturinn við að eiga mikið lifaða uppgjafahippa og alætur á tónlist fyrir foreldra er undarlegt plötusafn þeirra, í þessum töluðu orðum er Spámaðurinn að hlusta á Sovéska hermannakórinn syngja baráttusöngva alþýðunnar á móðurmáli sínu), horft á stóra sjónvarpið þeirra, notið þess lúxus að hafa aðgang að þurrkara þeirra, lesið bækurnar þeirra (sem er skemmtilegt af sömu ástæðu og plötusafn þeirra, brjóstarhaldarabrennur og danskar femínistaáróðursbókmenntir eiga bókahillu út af fyrir sig) og notar svo hröðu nýju tölvuna þeirra. Spámaðurinn mætti þó með sinn eigin tannbursta.
Einnig hefur Spámaðurinn notið nálægðar besta kaffis á landinu, en Súfistinn í Hafnarfirði býr til besta kaffi þessarar jarðvistar og er aðeins í örfárra mínútna fjarlægð frá heimili foreldranna. Svo gott er kaffið að veikar sálir verða aumir lífsstílsþrælar og gera ekkert annað en sitja þarna inni og lepja kaffi og sjúga camel lights allan daginn...Þeir hafa setið þar alveg frá því að Spámaðurinn man eftir að hafa komið þangað fyrst inn, og sitja þar enn.
Svona yndislegir hafa síðustu tveir dagar verið hjá Spámanninum... Frítt fæði úr ótæmandi ísskáp, besta kaffi á jarðríki í goldenskýi, skrif á ódauðlegum heimsbókmenntum þar sem lækningin á krabbameini, holdsveiki og lykillinn að friði í mið-austurlöndum munu koma fram (aka. B.A. ritgerð)og ómþýðir tónar sem boða frjálsar ástir og frið á jörð hljóma.
En Hafnarfjörðurinn er eins og öll sveitaþorp fjarri siðmenningu sírenuvælsins og bensínmekkjarins: Hann verður þreytandi á tiltölulega stuttum tíma.
Það sem fer mest í taugar Spámannsins eru íbúar fjarðarins hýra...Það er eins og hafgolan slævi fólk og blási svo allri framtakssemi langt á haf út þar sem mávar og múkkar tæta hana í sig. Staðurinn er í endalausu millibilsástandi. Staðurinn er mitt á milli þess að vera lopahúfuprikshangsandi reykvíkingsmenningarpláss og þess að vera landaþambandislagsmála sjávarpláss hinu megin á landinu. Fólkið er allt í millibilsástandi, 90% íbúa á aldur við Spámannsins eru "tímabundið" í skítadjobbum sem það hefur verið í þriðjung ævinnar, allir eru á barmi þess að "meika það" (en ekki strax, fyrst kaffi og sígó) og þeir sem ætla sér að mennta sig eru að bíða eftir meiri pening/að tíminn sé réttur/réttri stöðu sólar gagnvart karlsvagninum... Það eina sem gerist hratt er að byggingar þjóta upp úr jörðinni á ógnarhraða.
Annars var Spámaðurinn að kjaga heim (og þó ekki heim) af Hafnfirska skemmtistaðnum þar sem víkingar kljúfa hvor annan í herðar niður með öxum og fórnarlömb hnífstunga liggja eins og hráviði um gólfin. Þar þambar fólk í millibilsástandi mjöð og talar hátt um framtíðaráform.
Spámaðurinn drakk tvö glös af öli og hélt svo heim með lykt af öli, úldnum framtíðaráformum og camelreyk í nösunum...
Thursday, February 17, 2005
"Kjóll fer austan,
koma munu Múspells
um lög lýðir,
en Loki stýrir."
Góðann dag.
Spámaðurinn gerði undarlega uppgötvun í gærkveldi... Hann er ekki lengur með aðeins 4 sjónvarpsstöðvar (Gufuna, Skjá1, Popptv og Ómega). Sjónvarp Spámannsins hefur hegðað sér undarlega undanfarna daga, svo Spámaðurinn fór eitthvað að fikta í stillingunum á því og komst í leiðinni að því að hann nær líka, af einhverjum ástæðum, rásinni "Hallmark".
Forvitinn um þessa nýjung eyddi Spámaðurinn kvöldinu í að glápa á "Hallmark". Heilt kvöld af "Hallmark" gerir undarlega hluti við mannshugann. Rásin er amerísk og framleiðir sitt eigið efni, efni sem hægt er að lýsa í stuttu máli með orðunum: "Fjölskylduvænt fjölskylduefni fyrir fjölskyldur".
Eftir þessa rannsókn komst Spámaðurinn að niðurstöðu: Í heimi Hallmark eru allir guðræknir, reyklausir, laglegir, harðgiftir með 3-4 börn, skjannahvítir og búa í hvítu húsi í úthverfi (og stundum á sveitabæ með maísakri þar sem berfætt börn hlaupa um). Ef að konur í heimi Hallmark eru einhleypar er það vegna þess að eiginmaður þeirra dó í slysi. Stundum eru líka myndir byggðar á "sönnum sögum", en þá er sagt frá slæmum hlutum sem henda guðræknar vísitölufjölskyldur (og sagan endar alltaf vel).
Eftir u.þ.b. þrjár og hálfa klukkustund af Hallmark fann Spámaðurinn til undarlegra kennda: Hann fann hjá sér sterka löngun til þess að fá sér stórann fjölskylduvænann hund, feðra 2.5 börn með kaþólskri, heimavinnandi húsmóður og fá sér vinnu á skrifstofu (og jafnvel skipta úr sígarettureykingum yfir í pípureykingar)... Þessar óeðlilegu og pervertísku kenndir liðu hinsvegar mjög hratt hjá og Spámaðurinn fylltist sjálfsviðbjóði og ákvað að horfa aldrei, aldrei aftur á þennan hroðalega skít sem Hallmark er.
Saturday, February 12, 2005
"Í vindi skal við höggva,
veðri á sjó róa,
myrkri við man spjalla:
Mörg eru dags augu.
á skip skal skriðar orka,
en á skjöld til hlífar,
mæki höggs,
en mey til kossa."
Gott kvöld.
Í gærkvöldi gekk Spámaðurinn í satanísk öldurhús óeðlis þar sem æluár fossa, glerbrot tindra í ljóma óteljandi sígarettuglóða og óminnishegrinn flögrar yfir höfðum guma. Spámaðurinn drakk meir en hann leggur í vana sinn, og meir en hann þoldi... Árar og djöflar tóku sér bólfestu í höfði hans, líkt og andsetna lýðnum sem hristist í krampakenndu óminnismóki á dansgólfinu.
Hann á óljósar minningar um að hafa paufast eftir strætum borgarinnar á leið heim í öryggi, ró og yl norðurmýrarinnar einhverntíma í morgunsárið... Óljósar minningar um að hafa svo á heimleið rekist á ástleitið kattarkvikindi sem áleit Sendiboða Guðdómleikans vera merkilegasta mann í heimi og neri sér við fætur hans...Skepnan bar hálsól með kringlóttum pening sem í var grafið eitt orð: "dekrið". Spámanninum fannst þetta sniðugt svo hann klappaði og kjassaði skepnuna í dágóða stund úti á miðri götu... Þessar aðfarir sjarmeruðu kvikindið svo rosalega að það elti Spámanninn alla leið inn í norðurmýrina þrátt fyrir fortölur, skammir og tiltal Frelsara Mannkindar, sem óttaðist að ferfætlingurinn myndi týnast.
Friday, February 11, 2005
"Vesall maður
og illa skapi
hlær að hvívetna."
Gott kvöld.
Spámaðurinn er kominn aftur með alnetstengingu.
Spámaðurinn var kominn aftur á steinöld. Sjónvarpið hans bilaði, fréttablaðið kom af einhverjum ástæðum ekki lengur inn um lúguna, og svo var hann ekki með tölvu.
Málpípa almættisins tók sig því til og hóf lestur við grútartýru.
Spámaðurinn eyddi tveimur kvöldum í það að lesa hverju einustu Tinnabók sem hefur nokkurntíma verið gefin út.
Snemma á ferlinum var Tinni blóðþyrstur morðingi sem ráfaði um sléttur afríku og slátraði dýrum í útrýmingarhættu í massavís að gamni sínu og misþyrmdi innfæddum. T.d. Boraði hann gat í öxlina á nashyrningi og tróð þar inn dýnamíti og sprengdi svo nashyrninginn í loft upp, hann skýtur apa, fláir hann og klæðist skinni hans til þess að svíkja aðra apa í viðskiptum og þvingar svo innfædda til að lúta hinni Belgísku nýlendustefnu. En Tinni sá svo að sér með tímanum og fór smátt og smátt að verða mannúðlegri og vistvænni í hegðan og framgöngu sinni.
Hergé, teiknarinn sem feðraði Tinna hefur svo sannarlega verið sjáandi. Hann sá fyrir tungllendinguna, olíustríð í mið-austurlöndum...Og já...Jafnvel vandamál Íslensks samtíma sem við höfum tiltölulega nýlega þurft að kljást við. Spámaðurinn hvetur alla til að lesa Spádóma Hergés. Tinni hefur einu sinni stigið fæti á vora fögru fósturjörð, Ísland. Í bókinni "Dularfulla Stjarnan" halda Tinni og Kolbeinn í áttina að norðurpólnum að leita að loftsteini sem lenti í sjónum norðan við Ísland.
Þegar Tinni og Kolbeinn leggjast að landi í Reykjavík (og líka Akureyri, báðar stórborgirnar eru einungis byggðar bjálkakofum) sést hin gríðarlega Spádómsgjöf Hergé's. Nei, Tinni og Kolbeinn þurfa ekki að kljást við Kleifarvatnsskrímslið, og ekki víkínga eða ísbirni. Nei...Óvinurinn á Íslandi er harðsvírað olíufyrirtæki sem er með einokar alla sölu á eldsneyti á Íslandi.