Saturday, July 30, 2005
"Lítilla sanda
lítilla sæva
lítil eru geð guma."
Góðann dag.
Eins og áður hefur komið fram hefur Spámaðurinn verið að starfa á hóteli úti á landi í sumar. Spámaðurinn gengur í vandræðalegum einkennisbúningi og er hlekkjaður við lítið búr sem ber nafnið "afgreiðsla/móttaka" í 12 tíma í senn. Spámaðurinn hefur sumsé umbreyst yfir í það sem hann fyrirlítur, þeas. einkennisklæddann kontórista. Starfið er eitthvað sem Spámaðurinn hefur hingað til ekki átt að venjast. Það felst aðallega í því að rétta fólki lykla, uppfylla sérþarfir ferðamanna og að glíma svo daglega við sinn stærsta óvin: Stærðfræðipappírsflóðsskrímslið, en veiki blettir Spámannsins hafa alltaf verið hverskonar skýrslugerðir, kontóristafökksjitt og stærðfræði. En Spámaðurinn vælir ekki, því kaupið er ágætt og hann fær marga frídaga.
Eitthvað hefur verið um árekstra milli menningarheima hérna á hjara veraldar. En um daginn gistu ferðamenn á hótelinu sem höfðu aðgang að eldhúsaðstöðu í byggingu nokkurri sem hefur ekki verið í notkun um nokkurt skeið.
Um kveldið komu hinir erlendu leiðsögumenn hópsins og kvörtuðu yfir því að þeir væru látnir elda mat og næra sig í hinu versta krakkbæli. Þegar drengurinn í afgreiðslunni spurði hvers vegna þeir teldu svo vera sögðu þeir að gólfin væru skítug og þeir hefðu fundið heróínsprautu.
Morguninn eftir var Spámaðurinn í afgreiðslunni þegar leiðsögumennirnir komu öskureiðir og lýstu því yfir að þetta sveitahótel í þingeyjarsýslu ætti við alvarlegt eiturlyfjavandamál að stríða. Þeir hefðu fundið aðra sprautu á gólfinu og gestirnir lifðu í stöðugum ótta við geðtruflaða eiturfíkla. Þegar Spámaðurinn bað um að fá að berja neyslutólin augum kom annar leiðsögumannanna með plastpoka sem hann hélt á með tveimur fingrum og viðbjóðsgrettu á andliti.
Spámaðurinn skoðaði gripinn og áttaði sig fljótlega á misskilningnum sem þarna var á ferð. Jú, sprauta var þetta...Og vissulega var þetta sprauta ætluð til þess að dæla ávanabindandi efnum í titrandi hold fíkilsins.
Útlendu leiðsögumennirnir horfðu á Spámanninn með vantrúarsvip líkt og hann væri lélegasti lygari í heimi um leið og hann byrjaði að reyna að útskýra fyrir þeim hinn norðlenska sið að troða tóbaksköggli í sprautu og sprauta honum svo undir vörina á sér... Hann var ekki búinn að segja nema tvær setningar þegar annar leiðsögumannanna hreytti í hann: "Tobacco? I don't think so!". Og svo stormuðu þeir á braut.
Spámaðurinn hefur notað frítíma sinn að miklu leiti til ferðalaga og verið á flakki um sveitina. Þegar Spámanninn þyrstir í siðmenningu heldur hann til akureyrar (Spámaðurinn tekur því sem er í boði), en þegar hann þyrstir í brennivín fer hann í ÁTVR/fatahreinsun á Húsavík. Annars fyrirfinnast helstu verksummerki siðmenningar í þorpinu í kring um hótelið og starfsmenn svala þorsta sínum í flatbökur, auðvalds-kóla, bjór kaffi og morgunblöð í versluninni "Laugasel" (sem Spámaðurinn mælir hiklaust með).
Þegar Spámaðurinn er latur situr hann hinsvegar í grasinu við tjörnina og les...Sem er ósköp ljúft. Enda hefur Spámaðurinn torgað gríðarlegum fjölda bóka í sumar...
Tuesday, July 12, 2005
"Það man hún fólkvíg
fyrst í heimi,
er Gullveigu
geirum studdu"
Góðann dag.
Hótelið sem er vinnustaður Spámannsins er milli fjalls og ár. Yfir ána liggur brú... Handan hennar liggur siðmenning. Eina leiðin að og frá hótelinu er yfir hana. Dag hvern kjagar Spámaðurinn yfir brúna til þess að fá sér kaffibolla á kaffihúsi/bensínstöð/kjörbúð staðarins... Kvikindi nokkurt hefur tekið sér bólfestu á brúnni og gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að Spámaðurinn geti fengið kaffibollann sinn.
Á fræðimáli heitir illfyglið "Sterna Paradisea". Spámaðurinn sér ekki nokkurn skapaðann hlut í Kríunni sem hann getur tengt við "paradís". Sérstaklega ekki þegar hann er á harðahlaupum undan organdi fjaðrakústi sem reynir að gogga í hausinn á honum.
Að öllum líkindum hefur skepnan verpt undir brúnni.
Vinnufélagi Spámannsins varð vitni að því þegar umræddur fugl goggaði í höfuðið á öldruðum túrista sem var að rölta yfir brúna. Gamlinginn öskraði á frönsku að fuglinum og henti grjóti, en missti greinilega marks, því í dag var fuglinn í fullu fjöri á sínum stað eins og venjulega þegar Spámaðurinn ætlaði að fá sér kaffibollann sinn.
Íslensk náttúra getur verið varasöm.
Friday, July 08, 2005
"Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern."
Ef Ísland væri búkur væri Spámaðurinn núna staddur á rassgatsbarminum...
Stálskrímsli innbyrti Spámanninn í Reykjadal. Skrímslið hoppaði svo og skoppaði með Spámanninn ásamt öðrum mannabeinum í maganum áleiðis í austurátt. Dvölin í maga skrímslisins var Spámanninum erfið, þrátt fyrir fagurt útsýni úr glærum síðum dýrsins. Hin mannabeinin lyktuðu af þýskum svita og prímuselduðum pakkanúðlum auk þess sem reykingar eru bannaðar í belg dýrsins. Eftir hálfhring um landið, yfir brýr og utan í fjallshlíðum, spýtti skrímslið svo Spámanninum út úr sér á austurlandi.
Spámanninum er reyndar hálf órótt hérna þegar hann fer út á kaffihúsin eða barina, því síðasta sumar fór hann í fylleríi að skálda (ásamt nokkrum ferðafélögum sínum). Lókallinn sem var á barnum það kvöld heldur að Spámaðurinn hafi setið inni á litla hrauni fyrir margskonar glæpi (útlendur ferðafélagi Spámannsins var kynntur fyrir öræfingunum sem spænski tengiliðurinn "Hosé Carreras", hluti af "tenóramafíunni" alræmdu). Þetta þótti innfæddum tilkomumeira en glerperlur og speglar, og demdu á Spámanninn og félaga hans allskonar spurningum varðandi lífið í tugthúsinu (hvernig er svo maturinn þarna?).
Því er Spámanninum varla vært hér...Einhvern daginn mun einhver öræfinganna benda á Spámanninn og segja: "Þú ert ekkert nema lygalaupur" og svo mun hópur stæltra öræfinga ganga af honum dauðum...En það hefur ekki gerst ennþá, og Spámaðurinn á pantað far til mývatns á vængjum stálfugls á morgun. Því mun þessi tiltekni staður á austurlandi sennilega ekki ganga á vegum hins helga safnaðar Rassgathole á næstunni, þar sem innfæddir halda að hér sé ekki á ferð Fjárhirðir Mannkindar, heldur forhertur síbrotamaður.
Á morgun snýr Spámaðurinn svo aftur til vinnu sinnar. Dagar líknar og hjúkrunar eru taldir. Fyrirtækið sem Spámaðurinn starfar fyrir er saurugur kolkrabbi sem hýsir starfsfólk sitt í asbestfóðruðum rottuholum og leðurklæddir djöflar í yfirmannslíki lemja bersyndugar sálir með svipum og keðjum milli þess sem þeir spyrja spurninga á borð við: "Hvernig finnst ykkur að við getum bætt starfsandann?".
Þrátt fyrir það líður Spámanninum vel...