Saturday, January 28, 2006
Admiror pariens te non cecidisse ruinis qui tot scriptorum taedia sustineas
Gott kvöld.
Spámaðurinn komst nýlega að því að hann er með svalasta heilkenni í heimi. Einkennin eru reyndar ekkert sérlega skemmtileg en eru þó meinlaus þrátt fyrir hið ógnvekjandi nafn sem heilkennið ber. Á læknamáli heitir fyrirbærið sem Spámaðurinn þjáist af "EHS", sem stendur fyrir: "Exploding head syndrome".
Sprengihöfuðsheilkenni? Fyrirbærið lýsir sér þannig að ef að Spámaðurinn er mjög þreyttur og liggur í bælinu í því undarlega ástandi að vera milli svefns og vöku kemur stundum fyrir að hann vaknar við háværann hvell eins og skotið hafi verið úr byssu við eyrað á honum (eða jafnvel inni í því). Fleiri eru einkennin ekki, og eftir að Spámaðurinn hefur glennt upp glyrnurnar og fullvissað sig um að það standi ekki vopnaður leigumorðingi yfir honum nýbúinn að missa marks og gera kúlnagat í kodda hans, engar fallbyssur í herberginu og engin ummerki um sprengingu (þeas. alvöru sprengingu en ekki hina hefðbundnu "það er eins og einhver hafi varpað sprengju á svefnherbergið hjá þér" ummerki) sofnar Spámaðurinn yfirleitt strax aftur án þess að velta þessu frekar fyrir sér. Nú munu lesendur eflaust rjúka upp til handa og fóta og hrópa: "En Spámaður! Hvernig getur þú sofið eftir ósýnilega sprengingu í svefnherberginu hjá þér?!?!?"
Við örvæntingarfulla lesendur Rassgathole segir Spámaðurinn: Hafa verður í huga að í raun eru fleiri en einn Spámaður eru ábúendur í sama líkama. Spámaðurinn er fullkomið eintak af mannveru. Hann er traustverðugur, sanngjarn, sannsögull, lítillátur, auðmjúkur, traustverðugur og elskar börn. Annað eintak af Spámanninum, sem er einnig hýsill í sama líkama er "Þreytti Spámaðurinn" sem lætur oftast á sér kræla á ókristilegum tíma eftir ónægann svefn. Þreytti Spámaðurinn er með gáfnafar á við fósturvísi, er lymskufullur lygari og álíka traustverðugur og krakkfíkill ("Þreytti Spámaðurinn" er náskyldur "Drukkna Spámanninum"). Þreytti Spámaðurinn lemur gjarna "snooze" hnappinn á vekjaraklukkunni eða svarar í símann á náttborðinu og leggur hann á hliðina á náttborðinu svo að viðkomandi geti hlustað á hann hrjóta eða muldrar það sem hann heldur að viðkomandi á hinum enda línunar vilji heyra til þess að losna sem fyrst við hann og geta haldið áfram að sofa . Þreytti Spámaðurinn gerir þetta gjarna án þess að gera Venjulega Spámanninum viðvart, þannig hefur Spámaðurinn oft lofað sér í morgunkaffi eða á fundi en snemma morguns, skrópað og eytt svo því sem af er dagsins með óljósa tilfinnungu um að hann hafi gleymt einhverju. Þreytti Spámaðurinn er ekki týpa sem kippir sér upp við sprengingar í svefnherberginu hjá sér.
Á einhverjum tímapunkti gerði Spámaðurinn sér það samt ljóst að svona sprengingar gætu varla talist eðlilegar. Því notaði hann tækifærið síðast þegar hann fór til læknis og lýsti fyrirbærinu fyrir honum. Læknirinn sagði að fyrirbærið væri mjög sjaldgæft og að í raun væri ekkert vitað um það annað en að það væri ekki hættulegt.
Að öðru leiti er Spámaðurinn við hestaheilsu.
Monday, January 23, 2006
"Eldamaður drottningar varð nú þegar að matreiða lifrina og lungun, og hin vonda drottning borðaði þau í þeirri trú, að það væri lifur og lungu Mjallhvítar."
Gott kvöld.
Síðasta Von Mannkyns hefur eytt síðustu kvöldum í að hlusta á rödd framtíðarinnar í fortíðinni. Spámaðurinn er á því að framtíðin hafi verið mun skemmtilegri og athyglisverðari í fortíðinni. Árið er 2006...Í gamla daga var fólk á leiðinni til Mars í geimskipinu titanic2 árið 2006 að drekka kampavín, dansa foxtrot og spjalla um geimverupólitík í reyksalnum (yfirleitt gerast svo dularfullir atburðir um borð í titanic2 sem leiða mannkynið á nýjar brautir...en það er aukatriði). Í gamla daga var fólk löngu komið í þotubíla og veiddi risaeðlur með kjarnorkurifflum á meðan vélmenni vöskuðu upp fyrir það árið 2006. Árið 2006 í gamla daga voru stundum sprottnar upp róttækar og athyglisverðar pólitískar hugmyndir á borð við "nýkonungsveldið" þar sem einn illur meistari drottnaði yfir sköllóttu mannkyni í silfurjoggíngöllum sem lifði og hrærðist einungis til að þjóna meistaranum og var bannað að hugsa. Árið 2006 í gamla daga var mannkyn líka löngu búið að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í nýlendustefnunni og það farið að heyja stríð við geimverur á fjarlægum plánetum. Í gamla daga var fólk framtíðar líka miklu kurteisara og herramenn gengu með hatta og hanska. Oft vorum við líka búin að sprengja okkur í loft upp árið 2006 með kjarnorkusprengjum og kúldruðumst í göngum og hellum neðanjarðar á meðan risavaxnir geislavirkir íkornar ráfuðu um ofanjarðar og nærðust á hnetum og geislavirkum ná.
Hvað gerðist? Ánamaðkar langt yfir kjörþyngd í Tsjernóbil? Mannkynið að verða bensínlaust? Geitungar á Akureyri? Lélegt skíðafæri í Bláfjöllum? Tölvur sem hjálpartæki í afbrigðilegu (og einangruðu) kynlífi og sýndarmorðum? Bílar enn sem negldir við jörðina? Spennandi? Þetta er ekki framtíðin sem okkur var lofað! Allt þetta er hundleiðinlegt! Nei! Hnefann í borðið! Spámaðurinn vill sigla með Titanic2 til Venusar og skjóta kommúnista með geislabyssum! Spámaðurinn vill fara aftur til framtíðar!
Eða hvað? Endurspeglar sýn okkar á framtíðina okkur í núinu? Spámaðurinn hallast að því. Ágiskanir um komandi tíma virðast alltaf vera eitthvað sem tengist því sem fólk óttast (nema þú sért að bíða með Tómasi Cruise og félögum eftir að geimverurnar komi og breyti öllu). Ekki fyrir ýkja löngu var það raunhæfur möguleiki að svo færi að fólk yrði sprengt í loft upp og þyrfti svo að slást við risavaxna geislavirka íkorna um allan dósamatinn sem yrði eftir. Margir áttu líka von á því að Neil Armstrong yrði étinn af fjólubláum geimkolkrabba um leið og hann dræpi fæti á tunglið...
Annars getur nútíminn sosum verið undarlegri en framtíð fortíðarinnar öðru hverju. Nú þegar sjáum við undarlegar ljósmyndir á forsíðu Morgunblaðsins af hermönnum með súrefnisgrímur að umkringja hættulegann kjúkling úti á götu...
Heimavinna:
Gömul framtíð (ca. hálftími)
Tuesday, January 17, 2006
"Gaus eldr úr húsum.
Ör skjöldungr fór eldi
Ívist. Bændr misstu,
róggeisla vann ræsir
rauðan, lífs og auðar."
Gott kvöld.
Líf Spámannsins er frekar rútínukennt og grátt þessa dagana. Á hverjum morgni vaknar Spámaðurinn í morgunsárið, vafrar um íbúð sína vankaður, muldrandi særingaþulur og hálfsofandi líkt og dauðadrukkinn maður, reykjandi, á brókinni með súrmjólkurskál í annarri og einhverja auglýsingapésa af handahófi sem bréfberinn hefur troðið inn um lúguna hjá honum í hinni. Eftir sjóðheita sturtu er snjórinn svo öslaður gegn um kafaldsbyl í áttina að spítalanum þar sem hann gerir skyldu sína eins og róbóti þar til hann öslar svo snjóinn annaðhvort í áttina að kaffiteríu guðanna að lesa blöðin eða heim til sín. Kvöldmaturinn er svo yfirleitt frosin ýsa, túnfiskur eða sardínur... Spámaðurinn finnur reyndar heilasellur sínar dafna við allt þetta fiskiát...En á sama tíma finnur hann þungamálma og ál í líkama sínum safnast upp og bæta appelsínugulu í áru sína. Sumsé...Nægur skildingur til að éta og skíta en ekkert meir en það. Allt er í hófi, sem er dauft. Át í hófi, reykingar í hófi...Allt...Allt nema teþamb sem er mikið (Spámaðurinn á ca. 200 tepoka inni á skáp hjá sér), og áfengisþamb, sem er ekkert. Helgarnar fara svo í lestur, heimsóknir eða kaffihúsabrölt.
En Spámaðurinn hefur ákveðið að bíta á jaxlinn og líta á björtu hliðarnar... Meinlætalíferni gefur víst meiri séns á himnaríkisvist að jarðvist lokinni samkvæmt fjöldamörgum kenningum hinna ýmsu trúarbragða auk þess sem fátækt er gangstamacfökksjitt, sem þykir ansi flott í dag og er líka samkvæm listamannaklisjunni.
Wednesday, January 11, 2006
"Ganga hér að garði
gullhyrndar kýr,
öxn alsvartir
jötni að gamni;
fjöld á eg meiðma,
fjöld á eg menja,
einnar mér Freyju
ávant þykir."
Gott kvöld
Spámaðurinn er spriklandi fluga í silkiþráðum alnetsins.
Spámaðurinn drepur fingrum á lyklaborð úr gagnsæu plasti, svo nú getur hann fylgst með lyklaborðinu fyllast af tóbaksögnum og ösku í rauntíma. Fagnaðarerindið og stóra himneska áætlun Rassgathole fyrir líf ÞITT, lesandi góður, er aftur komin á sporið.
Borgir hrundu, árið hvaddi, og úr öskustónni reis Rassgathole.
Spámaðurinn er enn að hamast á mannaprótíni og mænuvökva með uppþvottabursta.
Spítalinn er maurabú með ívafi af veröld nýrri og góðri. Spámaðurinn krúnurakaði sig og lítur nú út eins og fígúra úr bakgrunni í Star Trek þætti þar sem hann valsar um rangala Spítalans í snjóhvítum galla stimplaður með bláum hakakrossi sem tilkynnir nærstöddum að Spámaðurinn sé eign þvottahúss Ríkisspítalanna.
Spámaðurinn er þeirrar skoðunar að allir starfsmenn spítalans ættu að vera skikkaðir til að krúnuraka sig til að eyða enn frekar öllum helstu persónueinkennum. Því næst væri hægt að koma fyrir hátulurum um gervalla ganga byggingarinnar og úr þeim myndi streyma lágvær tónlist með Enyu allann sólahringinn. Reykvélar gætu svo dælt skýjaflákum um gangana (og því ekki, á þessu stigi, að dæla jafnaðargeðslyfjum í alla starfsmenn og gera þá alla ófrjóa?).
Þannig höfum vér skapað himnaríki á háskólasjúkrahúsi í Rekyjavík.