Tuesday, February 28, 2006
"Viðurgefendur og endurgefendur
erust lengst vinir,
ef það bíður að verða vel."
Gott kvöld.
Síðustu helgi lagði Spámaðurinn leið sína í svartholið þar sem óminnishegrinn kroppar augun úr fordæmdum sálum og sturlaðir djöflar spranga um.
Spámaðurinn var í för með vel klæddum skriffinnum og því var haldið í ystu iður myrkustu djúpa hringiðunnar. Þar ægði saman afskræmdum smástirnum af smærri sjónvarpsstöðvunum, jakkafataklæddum drýslum og djöflum í útmignum lakkskóm og uppstríluðum hórum Satans. Útfrymi vall niður veggina og Spámaðurinn öslaði hland, uppgang, sígarettustubba og glerbrot upp í hné.
Þar sem Spámaðurinn barðist fyrir lífi sínu í öldurótinu við barinn þar sem útfrymi og eitur vall úr krönum varð honum skyndilega litið upp... Sægur koparlitra, sólbrenndra og vankaðra andlita fordæmdra sálna með tómar augntóftir mætti augliti hans, brimsaltur sviti draup úr loftinu og megn blanda af nálykt, salemreyk og melónubodyscrub fyllti öll vit Spámannsins. Spámaðurinn fann hvernig freyðandi eitrið flæddi yfir huga hans og át upp skynsemi hans, vit og ráð líkt og andleg saltsýra.
Þar sem Spámaðurinn stóð og fann rænu sína renna frá sér líkt og kvikasilfur á meðan hann horfði á fyrrnefndann sæg andlita hóf hann að tauta bænir og særingar fyrir munni sér... En það hafði lítil áhrif þarna í iðrum myrkursins meðal vítsloganna, það var eins og að reyna að tæma sjóinn með skóflu. En þá brá skyndilega fyrir ásjónu líknandi engils með geislabaug innan um öll hin afskræmdu andlit sólbrenndu uppvakninganna... Spámaðurinn beindi tárvotri ásjónu sinni til himins (en sá bara loftið sem úr vætlaði nikótíngult útfrymi og kreatínríkur sviti í kekkjóttum taumum niður í augu hans) og þakkaði hönnuði gangverksins fyrir þetta kraftaverk. Spámaðurinn gekk upp að englinum og öskraði í eyra hennar: "NEI HÆ!"
Daginn eftir vaknaði Spámaðurinn með óljósar minningar af dúpum og áhugaverðum samræðum, uppfullum af áhugverðum myndlíkingum og dillandi hlátri, við kraftaverkaengilinn fram eftir nóttu.
Á mánudaginn mætti Spámaðurinn til vinnu og hélt áfram að vaska upp glös fyrir kraftaverkaenglana til að sjóða fóstur og saur í. Þegar Spámaðurinn er búinn að þrífa fyrsta hollið af glerinu fer hann svo með það á litlum vagni og dreyfir því á rannsóknarstofurnar þar sem englarnir sjóða líkamsvessana og prenta út særingar og formúlur. Í virðingarstiga Spítalans er Spámaðurinn staðsettur einhversstaðar fyrir neðan inniskó (auk þess sem hann hefur öruggar heimildir fyrir því að hann er lægst launaður í allri álmunni).
Þegar Spámaðurinn gekk inn á eina stofuna með fangið fullt af flöskum, glerkúlum og tilraunaglösum sá hann baksvip kraftaverkaengilsins sem hann hafði séð um helgina. Skyndilega opnaðist flóðgátt í heila Spámannsins: Kristaltærar og skarpar minningar um það sem hafði raunverulega átt sér stað flæddu inn í huga hans... Minningar um draugfullann uppvaskara, illa til reika sem skjögraði upp að vinnufélaga sínum og upphóf þvoglumælta pörunartilburði ("hvasejiruh? ertuh oft hjérna?"). Minningar um drafandi og óskiljanlega ræðu um blóð í koppum og siðfræði sem Spámaðurinn hafði þrumað yfir henni þar sem hann stóð ótraustum fótum og hélt sér dauðahaldi í barbrúnina til þess að velta ekki um koll. Minningar um að hafa hellt brennivíni ofan í hálsinn á sér eftir að hafa mælt: "Skál atvinnuvegi okkar, pissi og blóði!"... Minningar um að hafa ómögulega munað nafn engilsins og hafa því ávarpað hana "líffræðingur". Minningar um augnaráð hennar, sem, þegar horft er um öxl, bar vott um ótta við þennan ofurölvi undirmann, uppvaskara og mennsku dyramottu sem var haldinn þvoglumæltri munnræpu.
Spámaðurinn ræskti sig, lagði glerið frá sér og muldraði: "Hérna eru glösin þín". Hún glotti og sagði: "Takk".
Allt var orðið aftur eins og það átti að vera.
Einn af liðum átaksins "Snertum börnin" sem gengur út á að kynna boðskap Rassgathole fyrir börnum og unglingum er að þýða kafla úr Rassgatholusarguðspjalli af handahófi yfir á táningamál. Því mun Rassgatholusarguðspjall dagsins verða þýtt yfir á mál unga fólksins. Eftir miklar rannsóknir og samráð við málfræðinga og aðra spekinga hefur Spámaðurinn komist að því að ný-íslenskan gengur út á að stytta orð og fella þau úr setningum, eða jafnvel fella niður heilar setningar. Við lifum í hnitmiðuðu þjóðfélagi sem er ánetjað hraða og viðskiptum. Notkun unga fólksins á málinu endurspeglar það.
Hér kemur þýðingin á færslu dagsins:
"brennivín og skækjur!! gegt! :)"
Thursday, February 23, 2006
"Mundit mellu kindar
miðjungs brúar Iðja
Gunnr um geira sennu
galdrs bráregni halda,
er hræstykkins hlakka
hraustr síns vinir mínu
tryggvi eg óð og eggjar
undgengin spjör dundu."
Djöflar hafa tekið sér bólfestu í líkama Spámannsins...Hann hefur legið með óráði, tautandi særingar og sötrandi melrose meir og minna alla vikuna.
Eftir að hafa legið á meltunni í svona langan tíma er Spámaðurinn að því kominn að springa úr eirðarleysi...
Eins og glöggir lesendur Rassgatholusarguðspjalla hafa kannski tekið eftir hefur Rassgathole tekið nokkrum breytingum undanfarið. Höfundur Rassgatholusarguðspjalla hefur tekið tæknina í sína þjónustu og nú býður Rassgathole ekki bara upp á texta, myndir og hljóð, heldur líka hreyfimyndir. Kirkja Rassgathole er ekki einungis fyrir hina fluglæsu og bókhneigðu eldri kynslóð...Rassgathole á erindi við ÞIG!
Viðfangsefni kvikmyndarinnar hér að ofan (það er meir en að segja það að klippa þennan óhugnað til fyrir ykkur almúgann og koma honum á alnetið) er, eðli málsins samkvæmt, margþætt. En það er, meðal annars, sýfilis, dauði, galdranornir, fjárhættuspil, kossar, eiturlyfjaneysla, áfengisneysla og jarðarfarir. Allt er þetta svo skreitt með hauskúpum, dvergum, fljúgandi sæskrímslum og hamhleypingum... Það er tilraun Rassgathole til að ná til yngstu kynslóðarinnar sem horfir á myndbönd af mannáti og nauðgunum á netinu sér til skemmtunar, en borðar ekki fisk því hann er ógeðslegur.
Spámaðurinn hefur verið sýktur af keðjubréfaklukkplágunni og hefur verið beðinn um að telja upp undarlegar vana sem hann temur sér... Spámaðurinn gengur yfirleitt út frá því að hann sé engum óæðri nema guðsvaldinu sem hann starfar fyrir sem holdgervingur og því geti ekkert sem hann gerir talist óvenjulegt... Hinsvegar, ef að örlög alheimsins yltu á svörum hans (eða hann væri klipinn mjög fast) myndi Spámaðurinn sennilega telja upp þessa hluti:
-Alltaf þegar Spámaðurinn eldar eitthvað úr pakka eða dós skellir hann innihaldinu í pott eða á pönnu og hendir svo ílátinu. Nokkrum augnablikum síðar þarf hann svo ávallt (muldrandi og pirraður) að sækja ílátið aftur ofan í ruslatunnuna til þess að lesa utan á það og fá upplýsingar um hvað hann á að elda innihaldið lengi.
-Alltaf þegar Spámaðurinn sér undirskriftir, hvort sem þær eru í gestabókum eða debetkortakvittanir, gefur hann þeim ósjálfrátt einkunir í huganum. Þetta er gamall ávani frá veggjakrotsárum Spámannsins. Eins þarf hann stundum að halda aftur af sér til að setja ekki pílu, stjörnu eða gæsalappir við nafn sitt þegar hann skrifar sjálfur undir eitthvað.
-Spámaðurinn sest alltaf í sama stæti á kaffistofu guðanna. Það hefur hann gert frá því að staðnum var skipt í "reyk" og "reyklaus" svæði fyrir nokkrum árum. Honum finnst ferðin hálf ónýt ef einhver annar situr í sæti hans og hann þarf að sitja annars staðar.
Spámaðurinn smitar Eddu og Palla af klukkplágunni...
Saturday, February 04, 2006
"Gín loft yfir
lindi jarðar.
Gapa ýgs kjaftar
orms í hæðum.
Mun Óðins son
eitri mæta
vargs að dauða
Víðars niðja.
Gott kveld.
Spámaðurinn bíður nú með óþreyju eftir sumrinu. Hann hefur ákveðið að fara ekki í einangrunarbúðir þetta sumarið eins og hann gerði síðasta sumar, þar sem hann starfaði í litlu búri í í afskekktu húsi uppi á fjalli þar sem eina samband hans við umheiminn var umferðaræð sem laxveiðijeppar og rauð blóðkorn, hlaðin bönunum (banönum?) og annari þróunaraðstoð, þutu eftir.
Nei... Spámaðurinn ætlar að eyða sumrinu þar sem hann getur farið heim og ráfað um híbýli sín nakinn og reykjandi eftir vinnu án þess að særa blygðunarkennd samtstarfsfólks. Þó lífið þar hafi verið nokkuð einfalt, í raun eins og vera ungabarn (þvottur þveginn á föstum tímum, eldað ofan í alla og allir svo svæfðir með ódýrum bjór) er það ekki eitthvað sem freistar Spámannsins í sumar (ekkert einkalíf, ekkert sjónvarp, ekkert útvarp, bannað að reykja inni, asbest í kaffinu og kýr á gangstéttunum).
Því sér Spámaðurinn fram á Reykvískt sumar með sveitaferðum í stað bæjarferða, dansi á rósum og saurlifnaði.
Annars er fátt fregna af Spámanninum...Hann eyðir dögum sínum í maurabúinu í einkennisbúningi hinna líknandi engla og sorterar líkamsvessa, drekkur biturt kaffi með bragðlausum mat í hádegishléum og hlustar á marsbúa leggja jörðina í eyði og Billie og Nínu á meðan hann vaskar upp tilraunaglös.
Spítalinn í dag...Á morgun: Hollywood!
Spámaðurinn hefur verið að velta fyrir sér rafræna dagbókarforminu sem áður. Fyrir allnokkru ritaði Spámaðurinn í rassgatholusarguðspjall að sennilega væri ekki hollt að halda utan um fortíðina í slíku formi þar sem maður kæmist líklega að því að líf manns væri endalausar uppgötvanir á sömu hlutunum...Einhverskonar brengluð neyslukönnun. En en hafa ber í huga að hlutir og umhverfi breytast og mannskepnan uppgötvar ávallt nýja hluti inn á milli. Jafnframt því að uppgötva vanilluskyr í þúsundasta skipti uppgötvar maðurinn sardínur eða varasalva eða nýja tegund af kaffi. Auk þess hefur enduruppgötvunin ákveðið gildi. Reyndar jafnast enduruppgötvun ekki á við upplifun í fyrsta skipti, jafnvel þó fyrsta reynslan hafi valdið vonbrigðum (Spámanninum fannst áfengi til dæmis bragðvont í fyrsta skipti, honum fannst sardínur vondar og hann ældi af fyrstu sígarettunni sinni). Eins eru hlutir til í dag sem voru ekki til í fyrra. Þrátt fyrir það er biturt að komast að því að maður hélt að maður væri að gera uppgötvun en komast svo að því að hafa orðið fyrir sömu hugljómun í fyrra.
Jacques Bormé sagði eitt sinn að maðurinn byrjaði að hrörna strax við fæðingu (eða jafnvel getnað). Hvað er þá hið hreina og fullkomna form? Er það ófætt tóm? Hálf manneskja í formi frumu? Frosinn fósturvísir? Skiptir reynsla manns þá engu? Samkvæmt Jacques er dauðinn þá sjúkdómur og reynsluheimur í raun aðeins sjúkdómseinkenni sem mannskepnan sýnir á meðan sjúkdómurinn dregur hana til dauða. Því er eina ráðið við sjúkdómnum að fækka einkennunum, fremja glæp og láta loka sig inni. Slíkar yfirlýsingar halda vöku fyrir Spámanninum sem veltir því oft fyrir sér hvort hann eigi þá ekki að snúast á sveif með brjálæðingnum Kendall sem, eins og allir vita, heldur því fram að maðurinn sé í raun ekki lífveran heldur samfélagið, líkt og maurar eða marglyttur. Skemmtikraftar á borð við William Shatner eru þá í raun bara endorfín í líkamanum. Rassgathole er heilinn og mænan á meðan forsetar eru axlir og herðar... Jú, Kendall er svo sannarlega snargeðveikur...En máski er klikkun svarið við áleitnum spurningum sem framtíð mannkyns veltur á? Við því segir Spámaðurinn nei! Allsgáð, stærðfræðileg hugsun í óendanlegu jafnvægi hins þenkjandi huga er svarið! Romm er til að hvíla hugann. Nú segja margir lesendur eflaust: "Kjaaaftæði haltu kjafti" en við því á Spámaðurinn aðeins eitt svar: "Sjálfuradna!". Og þar sem Rassgathole er nú komið á sandkassastigið ætlar Spámaðurinn að ljúka færslu þessari.