<$BlogRSDURL$>

Monday, March 27, 2006

















































Kiss Mi Rass:




Undur internetsins. Bylting í samskiptum. Prentsmiðja á hverju heimili. Bókasafn á hverju heimili. Allar upplýsingar í seilingarfjarlægð. Allt sem allir vilja!

Monday, March 20, 2006




"Einn morgun, þá karl fór á skóg að veiða dýr og fugla, segir hann við kerlingu: "Í kvöld skal ég drepa þig, ef þú verður ekki búin að eiga mér króga." Síðan fór hann af stað."

Gott kvöld.
Spámaðurinn hefur fengið nóg af fátæktinni... Hann var að átta sig á því að ástandið er mun verra en þegar að hann saug LÍNspenann af áfergju. Botninum var náð um daginn þegar Spámaðurinn var að gramsa í skúffu eftir teikniblokk og fann þar tvær agnarsmáar glerflöskur, svipaðar að stærð og þykkt og langatöng Spámannsins (sem er, eftir því sem Spámaðurinn best veit, staðalstærð á löngutöng). Við nánari athugun kom í ljós að flöskurnar innihéldu ekki ilmvatn eða olíu heldur einhverja bónustegund af rommi (flöskurnar eiga eflaust ættir að rekja til flugvélar eða gistiheimilis einhverntíma í forneskju)... Daginn eftir kom Spámaðurinn við í kíóski á leið heim úr vinnunni og keypti tvær flöskur af auðvaldskóla í gleri (borgaðar með kílói af krónupeningum) og valhoppaði svo skríkjandi inn í norðurmýrina... Tilbreyting! Lúxus! Dagurinn í dag skyldi verða öðruvísi! Í dag skyldi hann drekka romm&kók í stað hins hefðbundna bolla af grænu bragakaffi þegar hann kæmi heim úr vinnunni. Hann skyldi sýna heiminum í tvo heimana! Spámaðurinn kom heim, kveikti á útvarpinu og tæmdi innihald annarar dvergrommflöskunnar í glas. Hann ákvað að geyma hina til morguns. Því næst tæmdi hann aðra kókflöskuna í glasið og bætti svo við tveimur klökum úr frystinum. Hann raulaði lag um Trinidad og kátar stúlkur eftir Andrew systur á meðan hann sótti dýrmætann tuttuga daga gamlann pakka ofan í skúffuna gjafmildu og tók upp úr honum dýrmæta tilbreytingu: Gaulverjasígarettu, í pakkanum höfðu verið þrjár slíkar, núna voru eftir tvær. Spámaðurinn settist niður með glasið og öskubakka fyrir framan sig og nuddaði saman lófunum. Eitthvað vantaði... Spámaðurinn stökk á fætur, hljóp inn í eldhús og kom aftur í loftköstum að stofuborðinu með plastpinna í hönd sem hann stakk svo ofan í glasið... Þar sem hann sat og horfði á glasið fór hann að átta sig á ömurleika aðstæðnanna. Hvernig höfðu hlutirnir æxlast þannig að það hluturinn sem bjargaði deginum var drasl sem hann hafði eflaust stungið í vasann í hugsunarleysi fyrir einhverjum árum síðan? Fyrir sex mánuðum síðan gat hann þambað allt það romm sem hann gat í sig látið þegar honum sagði svo hugur, sötrað kaffi á almannfæri hvenær sem er og jafnvel fengið sér ísblóm eftir kvöldmatinn stöku sinnum. Helvítis skóli&skítadjobb pakki! Sex mánuðir af þessum andskota er of mikið, jafnvel fyrir Boðbera Himneskrar Upphafningar. Spámaðurinn íhugaði eitt augnablik að ræna banka, en afskrifaði þá hugmynd um leið og hann áttaði sig á að hann hefur engann veginn efni á kraftgalla, nælonsokk, né kúbeini, auk þess sem hann þarf að nota búrhnífinn í annað. Spilavíti rauða krossins flugu örstutt í gegnum huga Spámannsins en tíðar ferðir framhjá glugganum á svarta svaninum á morgnana eru öflug bólusetning við slíkum fantasíum, svo þær hugsanir urðu ekki áleitnar. Enn hræðilegri var hugsunin um málverk af fossi og hesti sem saurgaði huga Spámannsins eitt sekúndubrot. En henni bægði Spámaðurinn frá sér undir eins. Nei...Hann er ekki svo djúpt sokkinn enn! Ef allt fer í hart er vorið ekki langt undan og Spámaðurinn getur þá lifað á túlípönum og rifsberjum sem vella fram úr sköpum móður náttúru í görðunum í Norðurmýrinni.

Hálftíma síðar stóðu tvær tómar, agnarsmáar flöskur á borðinu við hliðina á tveimur tómum kókflöskum og í öskubakkanum voru þrír gaulverjastubbar.
Einn mánuður í viðbót...kannski tveir. Eftir það: Romm, skækjur og rjómaís!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?    Site Meter