<$BlogRSDURL$>

Thursday, June 29, 2006


"gap var ginnunga
en gras hvergi."

Gott kvöld.
Spámaðurinn hefur nú öðlast dýpri skilning á því sem þrælum Hjörleifs gekk til er þeir hófu verkalýðsbaráttu sína og drápu eiganda sinn (þó er Spámaðurinn engu nær um ástæðuna fyrir því að þeir flúðu til Vestmannaeyja eftir drápið)... Skrif Spámannsins skal ekki túlka sem líflátshótun við Landlækni heldur sem tjáningu um leiða Spámannsins á starfi sínu, skreytta orðflúri og gífuryrðum.
Spámaðurinn áttaði sig á þessu í morgun. Hann vaknaði á undan vekjaraklukkunni, aldrei þessu vant. Hann ráfaði fáklæddur um stofuna með hálflokuð augu, reykjandi og muldrandi særingar í flóðlýstri íbúðinni á meðan svefnvíman rann af honum. Eitthvað var erfiðara en það var venjulega, en í svefndrukknum morgunseremóníum sínum átti hann erfitt með að átta sig nákvæmlega á því hvað var að. Eftir að hafa laugað sig og burstað á sér skoltinn týndi hann á sig spjarirnar og fyllti vasana af auðkennikortum, matarmiðum, tóbaki, rafrænum tónlistarheila, brenni og öðrum hlutum nauðsynlegum í dagsins önn. Hann dró á sig skó og skellti í lás á eftir sér. Í glampandi sólskini og ærandi fuglasöng paufaðist Spámaðurinn í átt að vinnustað sínum. Risastór regnbogi var á himni og endi hans var á miðri Miklubraut...Spámaðurinn velti fyrir sér kaldhæðninni sem fælist í því að til að komast að enda regnbogans, brú guðanna, bifrastar sem leiðir til Valhallar og goða, þyrfti maður að fara mitt út á hættulegustu umferðaræð á landinu. Umrædd umferðargata virtist þó ekki mjög hættuleg... Og það vantaði eitthvað. Jú, það vantaði umferðarniðinn. Á hverjum degi leggur Spámaðurinn líf sitt í hættu til að komast í vinnu sína til að líkna samborgurum sínum á óbeinann hátt með því að skrúbba tilraunaglösin sem þeir hrækja og kúka í. Á hverjum degi hleypur Spámaðurinn, með lífið í lúkunum milli bíla á fleygiferð til þess að spara sér nokkur spor að næstu gönguljósum. Á hverjum degi stendur hann á grútmengaðri umferðareyju og bíður eftir réttu sekúndunni til að hlaupa eins og fætur toga.


Þetta var þó undarlegt. Hvers vegna var enginn að reyna að drepa Spámanninn? Hvers vegna heyrði hann fiðurféð garga í trjánum í stað organdi eimyrjuspúandi einkabíla? Hvar voru allir? Voru þetta tálsýnir Satans? Var frídagur í dag? Var hann einn í heiminum eins og Palli? Höfðu íbúar borgarinnar verið þurrkaðir út með sýklavopnum á meðan Spámaðurinn svaf?
Spámaðurinn fiskaði farsíma sinn upp úr vasanum og pírði augun á rispaðann skjáinn... Það voru tveir og hálfur tími þangað til hann átti að mæta í vinnuna.

Saturday, June 17, 2006


This page is powered by Blogger. Isn't yours?    Site Meter